2. Apríl

/ apríl 1, 2008

{mosimage}Æjá, við misstum okkur aðeins í gær, fyrsta Apríl.
Allar fréttir dagsins voru tómt bull, uppspuni, þvættingur og vitleysa frá upphafi til enda, enda er þessi dagur ætíð í heiðri hafður hér.

Um hádegi þann 1. Apríl hafði vefmyndavélin verið skoðuð 12.638 sinnum. En að morgni 2. Apríl hafði hún verið skoðuð 12.680 sinnum.

Menn voru greinilega frekar til í að kíkja í vefmyndavélina en fara niður á bryggju. En svo skemmtilega vildi til að vefmyndavélin var frosin og settu hrekkjalómarnir þessa mynd inn í staðinn:

{mosimage}

Það voru engir seglbátar í auglýsingu sýslumanns síðastliðinn laugardag og engin illindi í þeim góða hópi sem að Bestu standa.

Þótt venjulegum dísil væri blandað í tank þá væri liturinn enn til staðar.

Baldvin færi aldrei að elta vini sína á löggubát og þar að auki þver á móti þessari reglugerð. Löggan er líka löngu búin að skila bátnum.

Þessi blessaða snekkja kæmist ekki einu sinni fyrir við bryggjuna hjá okkur.

Þess vegna ætti maður ekki að taka neitt trúanlegt 1. Apríl.

Fyrir þá sem misstu af þessu:


Besta á uppboði
{mosimage}Samkvæmt auglýsingu frá Sýslumanninum í Reykjavík, í Morgunblaðinu síðastliðinn laugardag, verður seglskútan Besta ISL2598 boðin upp á uppbboði næstkomandi laugardag.
Samkvæmt áreiðanlegum heimildum eru einhver illindi í gangi í félagsskapnum og opinber gjöld ásamt tryggingum og fleiru ógreidd. Skútan verður því boðin upp.
Samkvæmt upplýsingum frá Þytsmönnum er skútan enn upp á landi í Hafnarfirði við Siglingaklúbbinn Þyt. Þaðan verður hún flutt í kvöld þegar umferð er í lágmarki. Áhugasamir geta skoðað gripinn í dag og í kvöld þar til hún verður flutt í geymslu Sýslumanns.
Búast má við að hægt verði að kaupa skútuna á góðu verði. Eigendur skútunnar neita allir að svara spurningum fréttaritara um málið.

Venjulegur dísill á lituðu verði
{mosimage}Við fréttum að það hefði fyrir mistök verið settur venujlegur dísill, það er að segja ekki litaður á tank N1 hinum megin í höfninni. Þar sem dælurnar þrjár eru á bryggjunni, slangan nær í land upp landganginn. Í sömu ferð var fyllt á diesel tankinn hjá Snarfara. Á þessum báðum stöðum má sem sagt kaupa venjulegt diesel á verði litaðrar olíu. Nú er bara að drífa sig áður en þetta uppgötvast, skreppa og fylla á jeppann. Báðar þessar dælur taka greiðslukort.

Lögreglan felur bátinn í hendur Brokeyjar
{mosimage}Gert hefur verið samkomulag við Lögreglustjórann á Höfuðborgarsvæðinu um yfirtöku á gæslubáti þeirra. Samkomulagið felst í því að báturinn verður við flotbryggu Brokeyjar allt árið en Lögreglan hefur aðgang að honum ef á þarf að halda. Einnig hefur stjórn Brokeyjar samþykkt að sinna löggæslu á hafnarsvæði Reykjavíkurhafnar, þar með talið ytrihöfninni. Það felst í því að láta menn blása þegar þeir koma í land eða eru á siglingu og elta uppi drukkna og eða próflausa skemmtibátasiglara. Er samkomulag þetta unnið í framhaldi af reglugerðarbreytingu um skemmtibátaskírteini. Umsjónarmaður bátsins verður enginn annar en Baldvin Björgvinsson sjálfur. Bátnum verður lagt við hlið báts Landhelgisgæslunnar um miðjan dag í dag. Við bendum á vefmyndavélina okkar til að skoða bæði skip og bát.

Brokeyingum boðið um borð
Nú næstu daga mun Al Gore gista um borð í fyrrum lúxussnekkju Saddam Hussein. Vegna þess hversu erfitt er að komast að Ingólfsgarði og þar með auðvelt að tryggja öryggi þeirra sem þar eru. Hafa lífverðir kosið að leggja snekkjunni við Ingólfsgarðinn, rétt við siglingaklúbbinn okkar.
Stjórn Brokeyjar samþykkti þetta með því skilyrði að félagsmönnum yrði boðið um borð til að skoða gripinn. Félagsmönnum í Brokey er hér með boðið um borð við Ingólfsgarðinn kl. 18:00. Boð þetta gildir eingöngu fyrir fullgilda skráða félaga í Brokey Siglingafélagi Reykjavíkur. Ekki er heimilt að hafa með sér gesti. Siglingamönnum sem stjórnarmenn þekkja í sjón verður þó hleypt akandi og gangandi út á garðinn á sama tíma til að skoða skipið að utan.
Snekkjan á sundunum
Af þessum orsökum verður Ingólfsgarður lokaður fyrir almenningi fram yfir helgi.

Af öryggisástæðum verður slökkt á vefmyndavélinni yfir helgina.

Share this Post