500 kílóa peningar

/ desember 4, 2006

{mosimage}Við erum í landi steinpeninganna. Fyrr á öldum sigldu menn yfir úthafid, hundruð sjómílna, til að ná sér í svarta steina sem voru höggnir í hring. Hring med gati…



Svo voru þeir fluttir á eintrjánungum til baka, kanski 500 kílóa flykki, og keyptar jarðir, konur og búsmali. Verðmætið er þó ekki endilega falið í stærðinni, heldur sögu hvers steins.


Líklega voru Yap-arnir mestu sjómenn heimsins í margar aldir. Fundu örsmáar eyjar í óravíðáttunni, eftir sjólagi, skýjafari og einhverju öðru álika. Eyjar sem eru svo lagar að þær sjást ekki nema í um 10 sjómílna fjarlægð. Eyjar sem eru svo smáar og dreyfðar ad þær eru ekki merktar inná fjölda landakorta. Þegar evropumenn komu hingað um 1500 var þessi þekking ennþá í fullu gildi og spánverjar fengu þá til að sýna sér hvar eyjar væri að finna.


Eiginlega er ég ekki í neinu burtistan núna. Hérna á Yap, í sameinaða smáeyja ríkinu, er flest ótrúlega nútímalegt. Í kaupfélaginu er flest það til sem hugurinn girnist. Vegirnir eru malbikaðir og það eru fangar að hreinsa kantana utan við veginn – alveg eins og í Ammmeríku. Kanarnir hafa lika ráðið hér síðan í seinni heimstyrjöld og þó að sameinaða smáeyja ríkið hafi fengið sjálfstæði frá bandaríkjamönnum fyrir nokkrum árum þá er þetta hálfgert útibú frá USA. Samt eru hérna engir atvinnuvegir. Stærsti vinnuveitandinn er rikið sem fær styrk frá bandaríkjamönnum, tekjustofn númer tvö er að selja japönum, kínverjum og kóreubúum fiskveiðiréttindi. Annars er ekkert hérna. Allt í búðinni er innflutt. Það var hellingur hérna milli striða þegar japparnir réðu, aðallega landbúnaður, en þá voru heimamenn líka í minnihluta.


Fólkið hérna er fallegt, ofsalega eitthvað þétt og kraftalegt. Það er eins og maður sé staddur í anddyrinu á líkamsræktarstöð. Þó hrekkur maður aðeins við þegar maður mætir konum af öllum gerðum sem eru berar að ofan, jafnvel inni í kaupfélaginu, eða köllum sem eru með linda um sig miðja en eru ekki í buxum. Samt er maður ekki langt í burtu hérna.


Ætluðum i þorp, med samkomuhúsi, mannahúsi og konuhúsi, allt uppá gamla mátann, en þegar við komum þangað var þorpið horfið, hafði lent í fellibyl fyrir fjórum árum. Samkomuhúsið hafði verið endurbyggt og kofi sem dóttir gamla höfðingjans bjó í, lömuð. Hann dó í veðrinu eins og svo margir aðrir.


Við skelltum okkur á eitt af stóru, fínu hótelunum hérna að borða. Stelpan á barnum sagði okkur að núna væru 5 gestir á hótelinu. Voru bara tveir um miðja vikuna sagði hún. Milli 10 og 20 manns á vaktinni en bara fimm gestir og svo við tveir sem mættum lika í mat. Engan veginn rífandi buisness.


kveðjur frá 9 30,8n 138 07,3e 02.12.2006/


Magnús Waage

p.s. Fellibylurinn sem ég sagði frá í síðasta bréfi, sá sem ekki stríddi okkur neitt sem heitið gat, er samkvæmt siðustu fréttum búinn að drepa 388 á Fillippseyjum. Ölduhæðin var víst um 14 metrar þegar hann koma þar að landi og styrkurinn nálgaðist 200 hnúta. Eins gott að fylgjast með verðurspám.

Share this Post