7. Sögur af sæfarendum

/ júlí 25, 2006

Eins og fyrr segir hafa keppendur í Skippers D’ Islande lent í ýmsum hrakningum á leiðinni. En allir komu þeir aftur og enginn þeirra dó, sem er aðalatriðið. Smelltu á meira til að heyra nokkrar sögur.


1. Liðið á Port Du Gravlin lenti í frekar slæmum vandræðum. Það var pínulítið gat á slöngu sem tengist neðst í vatnstankinn. Það fór því þannig að eftir tveggja daga siglingu frá Grindavík, þar sem þeir höfðu leitað í var, var vatnstankurinn galtómur. Það hafði allt lekið úr honum niður í kjöl og lítið annað að gera en að dæla kjölvatninu í hafið. Það var því bara drukkinn bjór, rauðvín og viskí á þeim bát restina af leiðinni. Það tók þá reyndar ellefu daga að komast alla leið, með stoppinu í Grindavík meðtöldu.

2. Allir sem fréttaritari ykkar hittir í Paimpol skilja engan vegin af hverju íslenskur bátur eða íslensk áhöf er ekki með. Við erum næstum skammaðir fyrir það. Enda setti þátttaka Íslendinganna mikinn svip á keppnina síðast.
Það var mikið reynt að fá styrktaraðila til að gera þetta mögulegt en gekk ekki. Þeim sem voru að kaupa báta þetta sumarið var líka bent á að vera með í keppninni til íslands. Það hefði verið lítið mál að finna hóp stórgóðra siglara til að keppa bátnumm til íslands. En nei, sögðu allir. Það bara verður að vera Íslensk áhöfn í keppninni, skiptir ekki máli hver, bara einhver.

3. Við komumst að því hvað „Les Vedettes De Brehat“ stendur fyrir. Vedettes þýðir hraðbátar. Brehat er fallega eyjan hér fyrir utan. Vedettes De Brehat eru hraðskreiðu ferjurnar sem ganga þarna á milli. Brehat er stórkostlega falleg eyja sem minnir svolítið á Flatey. Engir bílar bara gönguleiðir og gömul hús. Verðið á húsnæði þarna er hrikalegt enda er Brehat mikill snobbstaður og fólkið þar á mikið af aurum. Les Vedettes De Brehat, eða spíttferjurnar við Brehat, eru aðalstyrktaraðili Servane Escoffier í Skippers D’ Islande keppninni.

4. Afhverju hætti Aswakh keppni? Það fór þannig að sjálfstýringin bilaði á leiðinni frá Grundarfirði, og svo tók hann niðri við Akurey. En ástæðan fyrir því að hann hætti er sú að hann þurfti að drífa sig heim til að vera viðstaddur giftingu dóttur sinnar. Hann fékk því tvo aðra siglara til að sigla bátnum heim.

5. Af hverju vantar staðsetningar svo margra báta í keppninni? Það er vegna þess að það er eitthvað vesen á staðsetningardótinu, sem lítur út fyrir að vera einhverskonar tilraunaverkefni. Búnaðurinn hreinlega virkar ekki almennilega á öllum bátunum. Keppnisstjórnin hefur því þurft að leita annarra leiða til að finna út staðsetningu bátanna og áætla komutíma þeirra.

6. Þeir eru kannski síðustu sjóræningjarnir í okkar heimshluta hópurinn sem fór til Hellevoetsluis um páskana árið 2000. Þar voru þeir kærðir fyrir að stela skútunni SY-Passage. Jamm, níu stálheiðarlegir Íslendingar tóku sem sagt þetta að sér. Allt byggðist þetta nú á misskilningi sem nímenningarnir eru nokkuð vissir um að hafi aldrei verið annað en tilraun til að hafa stórfé af liðinu. Fréttaritari brokey.is frétti nú í gær að Interpol hefði haft samband við Dominic keppnisstjóra varðandi málið. Það er því augljóst að þetta eru alvöru sjóræningjar. Ég held að myndin skýri málið.

{mosimage}

7. Biskví. Pierre fór með okkur í myllu sem nýlega er búið að gera upp. Þar lærðum við allt um vindmyllur á hálftíma hjá frábærum leiðsögumanni. Í vindmyllunni var þriggja ára gamall brauðhleifur. Hann sagði okkur að þetta væri biskví. Þar að segja brauðið hafði verið bakað tvisvar og var því svo þurrt að það myglaði ekki. Biskví er sem sagt tvíbaka eða bara eitthvað brauð eða kex sem er búið að baka tvisvar. Þá er það svo þurrt að það myglar ekki.

{moscomment}

Share this Post