Aðalskipulagi mótmælt

/ september 19, 2013

Frestur að skila inn athugasemdum vegna aðalskipulags rennur út á morgun.  Brokey hefur mótmælt hugmyndum um smíði brúar yfir Fossvog enda myndi brú á þessum stað hafa skelfileg áhrif á þróun siglingaíþróttarinnar á Íslandi.

Yfirvöldum virðist vera alvara með áætlunum um brú yfir Fossvog, jafnvel þótt framkvæmdin kosti ca 2 milljarða og muni ekki stytta, heldur lengja leiðina milli miðbæja Kópavogs og Reykjavíkur.  Verði af smíði brúarinnar munu siglingar í Fossvogi leggjast af.

Hægt er að kynna sér aðalskipulagið hér: http://www.reykjavik.is/desktopdefault.aspx/tabid-3753/

Skýrsla um brúna er hér: http://www.reykjavik.is/Portaldata/1/Resources//Br__yfir_Fossvog_-_greinarger_-loka_tg_fa28feb2013.pdf

Smelltu á „lesa meira“ til að sjá mótmælabréf Brokeyjar..

Siglingafélag Reykjavíkur – Brokey
Nauthólsvík
Pósthólf 73, 101 Reykjavík
formadur@brokey.is

Reykjavík 17. september 2013

Athugasemd við aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030

Í aðalskipulagi er gert ráð fyrir brú yfir Fossvog.

Slík brú kæmi í veg fyrir áframhaldandi uppbyggingu siglingaíþróttarinnar í Fossvogi (sjá frekari útskýringar í bréfi frá Siglingafélagi Reykjavíkur-Brokey og Siglingafélaginu Ými, Kópavogi, dags. 30.apríl 2013) en félögin halda úti öflugu íþróttastarfi, þ.á.m. siglingaþjálfun fyrir byrjendur og lengra komna.

Siglingafélag Reykjavíkur hefur mikilla hagsmuna að gæta, enda er starfsemi félagsins á svæðinu háð því að hægt sé að sigla um Fossvog og Skerjafjörð.

Siglingafélag Reykjavíkur hefur nýtt Fossvog til siglingaþjálfunar frá árinu 1971 og hefur því áunnið sér hefðarétt á nýtingu svæðisins, sbr. 8. gr. laga nr. 46 frá árinu 1905 um hefð.

Siglingafélagið mótmælir þeirri staðhæfingu sem kemur fram í aðalskipulagi að göngu- og hjólabrú yfir Fossvog sé ein af meginforsendum byggðaþróunar í Vatnsmýri.

Í aðalskipulaginu kemur fram að markmið Reykjavíkurborgar sé að styrkja útivistarstarfsemi og siglingaaðstöðu í Fossvogi, vernda eigi Fossvogsbakka og sýndar eru myndir af skútum á siglingu um Fossvog. Þetta er í hrópandi mótsögn við áætlun um byggingu brúarinnar, sem myndi loka fyrir siglingar á Fossvogi og hafa ófyrirséð neikvæð áhrif á umhverfi og útivistarmöguleika svæðisins.

Siglingafélag Reykjavíkur telur að falla beri frá hugmyndum um þverun Fossvogs í aðalskipulagi fyrir 2010-2030 svo áfram verði hægt að stunda þar fjölbreytta útivist.

Áki Ásgeirsson
Siglingafélag Reykjavíkur – Brokey

Share this Post