Allur pakkinn af litlu tilefni

/ júlí 2, 2009

Í gærkvöld var björgunarsveit ræst út til að aðstoða Sigurvon sem festist á Engeyjarrifinu. Við þökkum fyrir dráttinn. Það vakti samt nokkra furðu þegar litið var út á sundin að þar var risastórt björgunarskip, fjórir misstórir slöngubátar og á bilinu 20 til 30 manns. Sjónvarpið, stöð 2 og blaðaljósmyndarar, maður spyr sig af hverju?

Samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum fengið var engin hætta á ferðum enda var afskaplega lítill vindur, engin alda og allir í fínasta lagi. Við vitum ekki betur en að það hafi komið skýrt fram þegar óskað var eftir hvort einhver gæti aðstoðað við dráttinn.

Einnig hefur okkur verið sagt að þeir hjá björgunarsveitinni hafi ákveðið að taka þetta sem æfingu og ræst út allan mannskapinn. Jú, gott og vel það er alltaf gott að æfa sig, en þeir sem eru tilbúnir til aðstoðar, og ekki er ástæða til að gera lítið úr þeim, verða líka aðeins að passa sig.

Ef bátseigandi á von á því að ef hann vantar smá drátt eða smávægilega aðstoð þá komi heil björgunarsveit, fréttamenn allra miðla bæði sjórnvarps og annarra, lögreglan, landhelgisgæslan og ég veit ekki hvað og hvað þá hugsar fólk sig þrisvar um áður en það óskar eftir aðstoð.

Til samanburðar má setja dæmið svona upp: Ökumaður bíls ekur útaf á lítilli ferð og óskar eftir einhverskonar aðstoð við að koma bílnum aftur upp á veg. Á staðinn mætir stærsti tækjabíll slökkviliðsins, fjórir sjúkrabílar, 20 til 30 manna lið, lögreglan, fréttastöðvar alla fjölmiðla osfrv. 

Ef Ársæll eða einhver önnur björgunar eða hjálparsveit þarf að æfa sig þá er alveg sjálfsagt að koma sameiginlega að slíku með eðlilegum hætti og halda æfingu sameiginlega eða bara hreinlega fá lánaðan hjá okkur bát.

Við þökkum fréttamiðlunum þessa ókeypis auglýsingu sem við fengum í miðjum fréttatíma og í öllum miðlum.

Sérstaklega þökkum við  björgunarsveitinni, sem okkur skilst að heiti Ársæll, fyrir aðstoðina. Þeir stóðu sig með prýði.

Share this Post