Ameríkubikarinn fer aftur heim

/ febrúar 14, 2010

Keppni dagsins gerði út um það hver hreppti Ameríkubikarinn. Líkt og í keppninni á föstudag reyndist þríbytnan USA-17 ná mun betri siglingu í öllum vindi en tvíbytnan Alinghi 5 í þríhyrningsbraut. Báðar fjölbytnurnar eru níutíu fet, en USA-17 notast við stífan væng fyrir stórsegl sem reyndist þeim betur í beitivindi. Bandaríska liðið var fyrra yfir startlínuna og jók forskotið jafnt og þétt alla keppnina. Niðurstaðan var því sú að USA-17 sigraði með fimm mínútna mun.

Bandaríkjamenn ættu því að kætast því þeir eru að fá bikarinn heim í fyrsta skipti eftir að hafa misst hann til skútunnar Black Magic frá Nýja Sjálandi (undir stjórn þess sama Russell Coutts og nú var framkvæmdastjóri bandaríska liðsins) árið 1995. Bandaríska liðið hafði aðeins einu sinni áður í sögu keppninnar tapað keppni (1983). Samfelld sigurganga New York Yacht Club frá 1851 til 1983 telst vera lengsta vinningslota sögunnar í skipulegri alþjóðlegri íþróttakeppni.

Share this Post