Brokeyingar á alþjóðamótum

/ júlí 30, 2018

Fjórir kænusiglarar úr Brokey eru þessa dagana að koma sér á ráslínu í alþjóðlegum mótum. Í Båstad í Svíþjóð eru þau Hólmfríður Gunnarsdóttir, Ólafur Áki Kjartansson og Ásgeir Kjartansson, auk Ísabellu Sólar Tryggvadóttur úr Nökkva, skráð í keppni í Optimist og Laser Radial í Junior Nordic Championships. Þetta er frumraun þeirra á alþjóðlegu móti og verður spennandi að fylgjast með hvernig gengur. Mótið fer fram í siglingamiðstöðinni Båstad við Eyrarsund. Hægt er að fylgjast með á vef miðstöðvarinnar, http://seglarveckanbastad.se/ og á FB-síðu mótsins: https://www.facebook.com/events/1596754367085579/

(Myndin er fengin að láni af Instagram-síðu Huldu)

Á sama tíma er Hulda Lilja Hannesdóttir að hefja keppni í Laser Radial á heimsmeistaramótinu í Árósum. Þetta er stærsti siglingaviðburður ársins með 1500 keppendur frá 90 löndum og gríðarhörð keppni sem mun ráða mestu um það hverjir fá að keppa á næstu Ólympíuleikum. Hulda er þarna í keppni við bestu Radial-siglara heims. Hægt verður að fylgjast með mótinu „live“ að hluta og skoða úrslit á https://aarhus2018.sailing.org/ . Þeir sem eru í Danmörku ættu ekki að láta Árósa framhjá sér fara því samhliða mótinu er mikil siglingahátíð í gangi með fjölda viðburða fyrir alla fjölskylduna: https://www.aarhus2018.dk/ .

Ekki eru nema rúmar tvær vikur síðan Brokeyjarskútan Xena sigraði legginn frá Færeyjum til Íslands í fyrstu alþjóðlegu úthafssiglingakeppninni sem haldin hefur verið við Ísland í meira en 10 ár. Árangurinn sýnir bæði að okkar fólk á fullt erindi á alþjóðleg mót og að þátttaka okkar í alþjóðlegu siglingastarfi hefur mikla þýðingu fyrir þróun íþróttarinnar hérna heima.

Share this Post