Dögun Íslandsmeistari 2011

/ ágúst 14, 2011

Stífur vaxandi vindur var síðasta dag Íslandsmótsins. Þegar líða tók á daginn fór vindur að slá í 15 m/s. Flestar eða allar áhafnir rifuðu seglin og létu það vera að setja upp belg í síðustu umferð enda hefði það orðið uppskrift að vandræðum og klúðri sem gæti kostað meira en ávinningurinn.

Það er óhætt að segja að allar áhafnir hafi siglt vel og átt góða spretti. Talsvert var um klúður, vesen og vandræði sem oft eyðilagði góðan árangur. Áhöfnin á Dögun er þar ekki undanskilin. En stundum er sagt að sá vinnur sem fæst mistök gerir.  

Áhöfnin á Dögun tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn. Áhöfnin á Lilju náði öðru sæti eftir góðan árangur á lokadegi mótsins. Þetta var vindur fyrir Liljuna, beitti vel og var í góðu jafnvægi í þessum stífa vindi. Áhöfnin á Aquarius náði 3. sæti og ungu strákarnir á Þernu voru flottir og bættu sig með hverri umferð. Einn dagur í viðbót og aldrei að vita hvar þeir hefðu endað. Við höfum ekki fengið útskrift á stigum né tímum en vonandi kemur það fljótlega upp á heimasíðu Þyts.

 

Share this Post