Enn blæs…

/ júní 5, 2007

{mosimage}Enn blæs full byrlega og skiljanlegt að fáir nenntu á sjó í dag. Það eru elstu mennirnir í flotanum sem kalla ekki allt ömmu sína sem létu sig hafa það….Meira að segja Bestumenn kúrðu í klúbbhúsinu. Keppnisstjórn var á báðum áttum hvort halda ætti keppni og hálft í hvoru biðu áhafnir eftir að keppni yrði blásin af. Ögrun og Dögun fóru út að startlínu og rifuðu allt í botn. Það heyrðist náttúrulega ekkert í flautunni og keppnisstjórarnir földu sig bakvið Sólfarið svo þeir sæjust örugglega ekki. Áhafnirnar fóru í „Hvar er Snorri“-leikinn. Dögun kom auga á fána sem tekinn var niður og fór af stað. Ögrun fylgdi bara í kjölfarið, sá aldrei Snorra.


Brautin var á ytri höfninni, þríhyrningur og pulsa. Sterkur suð-austan vindur en tiltölulega sléttur sjór sem gerði líklega útslagið. Þetta var bara nokkuð ljúf sigling. Hefði verið öldugangur hefði þetta verið miklu meira bras.


Ögrun sigldi Dögun uppi eins og von var. Þeim tókst að temja ótemjuna ótrúlega vel… þangað til þeir komu fyrir Hjallaskerið á bakborða. Vegna sterks vind ákváðu þeir að vera skynsamir og stagvenda í stað þess að kúvenda. Ég held þeir hafi farið fjórum sinnum fyrir baujuna áður en þeir ákváðu að kúvenda sem tókst án vandræða. Á þessu töpuðu þeir hellings tíma en græddu örugglega hellings reynslu. Dögun lærði líka og kúaði strax án vandræða.


Þetta urðu úrslitin í stystu keppni sumarsins:

Nafn – Sigldur – forgjöf – leiðréttur


Dögun 0:52:04 – 0.840 – 0:43:44
Ögrun 0:49:54 – 1.010 – 0:50:24

Share this Post