Frá aðalfundi

/ janúar 29, 2017

Aðalfundur Siglingafélags Reykjavíkur, Brokeyjar fór fram á Ingólfsgarði síðasta laugardag. Skýrsla stjórnar um starfið á síðasta ári var lögð fram. Ljóst er að umsvif félagsins fara vaxandi og að margar áskoranir eru framundan.

Mikil umræða spannst um kænudeild félagsins sem var á mikilli siglingu síðasta sumar eins og þátttaka og gengi í mótum ber glöggt vitni um. Bæði siglingamaður og siglingakona ársins 2016 eru úr kænudeild Brokeyjar. Mikill hugur er í fólki að byggja á þessum árangri. Við erum að stíga fyrstu skrefin, sagði Marcel Mendes da Costa, yfirmaður kænudeildar.

Gestaskútum fjölgaði umtalsvert líkt og árin á undan. Þar stóðu upp úr heimsóknir víkingaskipsins Haraldar hárfagra í maí, heimkoma Hugs þeirra Kristófers Oliverssonar og Svanfríðar Jónsdóttur í júlí og heimsókn Pieter Heerema á IMOCA-bátnum No Way Back í ágúst, en þessir viðburðir drógu fjölda fjólks niður á Ingólfsgarð. Um leið varð enn meira áberandi hvað aðstaða félagsins til að taka á móti skútum sem koma til okkar eftir margra daga úthafssiglingu er ófullnægjandi.

Nýr formaður og ný stjórn voru kjörin á fundinum. Nýr formaður félagsins er Arnar Freyr Jónsson en í stjórn eru Marcel Mendes da Costa, Áki Guðni Karlsson, Kristinn  Soffanías Rúnarsson, Gunnar Haraldsson, Úlfur Hróbjartsson og Ragnar Tryggvason.

Share this Post