Frábært námskeið í Hafnarfirði

/ júlí 6, 2009

Eins og fram hefur komið tóku allnokkrir Brokeyingar þátt í frábæru kappsiglinganámskeiði á kjölbátum hjá Þyt í Hafnarfirði um helgina. Leiðbeinandi var Barry Dunning, siglingaþjálfari frá Royal Yachting Association í Bretlandi.

Námskeiðið var sett upp þannig að fyrst voru gerðar æfingar á bátunum og farið yfir helstu atriði á fundum á eftir með aðstoð upptökuvélar og tússtöflunnar. Þannig voru æfðar vendingar með og án belgs, stört og stuttar kappsiglingar. Barry kom svo um borð í hvern bát og gaf góð ráð um merkingar og stillingar. 

Líklega standa störtin upp úr eftir helgina, enda fór mestur tími í að æfa þau. Það var einmitt í einu slíku sem óhappið varð sem lýst er hér að neðan, en oft var mikill hasar við línuna þegar menn reyndu að útfæra eigin áætlanir og koma sér fyrir á réttum stað á réttum tíma.

Vindurinn lét stundum bíða eftir sér en alltaf rættist úr og þegar upp var staðið voru aðstæður eins fjölbreyttar og best var á kosið, vindhraði frá 1,7 upp í 17 m/s, og lítil alda allan tímann. 

Allt skipulag og utanumhald af hálfu Þyts var framúrskarandi og veitingar fyrsta flokks. Sérstaklega vöktu grilluðu lambalærin hans Ása lukku á laugardagskvöldið. Menn voru vel haldnir í mat og drykk meðan á námskeiðinu stóð. Þetta var virkilega skemmtileg helgi og frábært framtak sem verður vonandi endurtekið fyrr en síðar. Svo er bara spurning hvort við fáum að sjá einhver ný herbrögð við startlínuna í næstu þriðjudagskeppnum.

Share this Post