Fréttir af aðalfundi

/ janúar 25, 2018

Aðalfundur Siglingafélags Reykjavíkur, Brokeyjar, fór fram á Ingólfsgarði þriðjudagskvöldið 23. janúar síðastliðinn. Um 20 manns mættu á fundinn. Kristján Skúli Sigurgeirsson var fundarstjóri.

Fyrir lá skýrsla formanns og ársreikningur félagsins. Arnar Freyr Jónsson formaður fór yfir starfið á síðasta ári þar sem hæst bar kaup á nýjum öryggisbát og mikill gangur í kænudeildinni með vor- og haustæfingum. Námskeið á Sigurvon gengu líka vel síðasta ár. Tveimur utanborðsmótorum var stolið úr Nauthólsvík en við fengum þá bætta frá tryggingafélaginu. Reikningar voru lagðir fram með fyrirvara um endurskoðun þar sem smávægilegt misræmi reyndist vera milli talna á reikningnum og því blaði sem skoðunarmenn áttu að skrifa undir. Annars er rekstur félagsins í svipuðu horfi og síðustu ár. Hagnaður var af rekstrinum sem að mestu felst í aukningu eigna (nýr öryggisbátur) en tekjur minnkuðu örlítið milli ára.

Þegar kom að formannskjöri buðu tveir sig fram, Halldór Jörgensson og Áki Ásgeirsson. Eftir leynilega kosningu hlaut Áki kosningu með eins atkvæðis mun. Stjórn var síðan nánast óbreytt frá fyrra ári nema hvað Kristinn Soffanías Rúnarsson hættir sem varamaður og Guðmundur Gunnarsson kemur í hans stað. Stjórn félagsins er því eftirfarandi:

Formaður.
Áki Ásgeirsson

Aðalmenn:
Gunnar Haraldsson
Áki Guðni Karlsson
Marcel Mendes da Costa
Ragnar Tryggvason

Varamenn:
Úlfur Hróbjartsson
Guðmundur Gunnarsson

Á fundinum lá fyrir tillaga frá fráfarandi stjórn um að félagsgjöld héldust óbreytt, 9000 kr. og var það samþykkt. Undir liðnum önnur mál var rætt um siðareglur og viðbragðsáætlun vegna ofbeldis og áreitni og stjórn falið að gera slíka áætlun í samræmi við tilmæli ÍSÍ.

 

Share this Post