Fréttir af aðalfundi

/ janúar 31, 2013

Aðalfundur Brokeyjar var haldinn á Ingólfsgarði síðasta þriðjudagskvöld og var ágætlega mætt. Kristján Sigurgeirsson formaður gerði grein fyrir athafnasemi félagsins á árinu og stöðunni í félagsheimilismálum. Sumarið var metár í fjölda gestaskúta og mikið líf í kringum félagið og góð þátttaka í keppnum, sem dregur aftur fram hvað aðstaðan er ófullnægjandi. Samningar standa yfir við borgina varðandi nýtt félagsheimili á þessum stað. Kristján vék líka að aðstöðunni í Gufunesi en þar hefur nú verið settur niður vinnuskúr sem hægt er að tengja við rafmagn. Í Nauthólsvík hefur talsvert áunnist eftir að borgin setti nýtt þak á húsin, meðal annars ný rennihurð fyrir bátageymsluna, en töluvert er enn eftir að gera. Nokkur umræða spannst um bryggjuaðstöðu í Nauthólsvík, en við erum háð velvilja Ýmis varðandi stæði fyrir öryggisbáta, sem nú eru orðnir tveir. 

Eftir skýrslu formanns fór gjaldkeri yfir reikninga félagsins. Afkoma félagsins var ágæt í fyrra þrátt fyrir nokkra fjárfestingu og viðhaldskostnað.

Nýir stjórnarmenn voru kjörnir á fundinum þeir Hannes Hilmarsson og Jón Pétur Friðriksson. Áfram í stjórn eru Jón Ólafsson, Guðmundur Gunnarsson, Arnar Freyr Jónsson og Ólafur Már Ólafsson. Áki Ásgeirsson var kjörinn formaður en Kristján Sigurgeirsson lætur af störfum eftir sex ára gifturíka formennsku.

Undir lok fundarins var aðeins rætt um framtíðaráform eins og aukið samstarf milli siglingafélaganna og að setja meiri kraft í aðstöðu og skipulag fyrir skemmtisiglingar. Eins var rætt um að vefmyndavélunum þyrfti að koma í gagnið sem fyrst. Þá var rætt um væntanlegar breytingar á vef félagsins og betri tengingu við Facebook- og YouTube-síðurnar. 

Share this Post