Fyrsta þriðjudagskeppnin

/ ágúst 2, 2009

Árabátur undir seglum frá upphafi 20. aldar - tengist efni fréttarinnar ekki beintSíðdegis þriðjudaginn 2. ágúst 1898 var haldin siglingakeppni í Reykjavíkurhöfn í tilefni af þjóðhátíð Reykvíkinga. Mun þetta vera fyrsta formlega siglingakeppnin sem sögur fara af á Íslandi. Fjórir bátar voru skráðir til leiks en aðeins tveir virðast hafa þreytt keppni. Sjór var úfinn og farið að hvessa. Af samtímalýsingum dagblaðanna að dæma virðist hafa gengið á ýmsu og heldur brösullega tekist til.

Myndin hér fyrir ofan er frá Ljósmyndasafni Þjóðminjasafns Íslands. Hún sýnir árabát undir seglum árið 1902 og tengist efni fréttarinnar ekki beint.

Dómarar voru Hansen liðþjálfi af danska varðskipinu Heimdal sem þá var í Reykjavíkurhöfn og Markús F. Bjarnason skólastjóri og stofnandi Stýrimannaskólans. Úrslit keppninnar voru þessi:

  1. H. Th. A. Thomsen kaupmaður 45 mín 30 sek
  2. Bátur 2 60 mín
  3. Bátur 3 (DNC?)

Eins og sjá má tókst Thomsen kaupmanni einum að sigla brautina sem var um hálfrar sjómílu löng þríhyrningsbraut í víkinni. Á þessum tíma var Reykjavíkurhöfn auðvitað ekki til í núverandi mynd en keppnin fór fram í víkinni framan við bryggjurnar sem lágu út frá sjávarkambinum norðan við Hafnarstræti.

Dagblöðin fluttu auðvitað fréttir af atburðinum eins og öðrum íþróttaviðburðum þennan dag og eru lýsingar þeirra fremur spaugilegar. Ber þar hæst ítarlega gagnrýni „Don Ramíró“ í Þjóðólfi:

Þá er að nefna kappróðurinn og kappsiglinguna. Hvorttveggja var mesta ómynd frá íslendinga hálfu. Gengur það ósvinnu næst að þreyta kappróður og kappsigling með öðrum eins fleytum og hásetum og hér var völ á, og til þess að bíta höfuðið af skömminni var útlendum flotaforingjum falin dómarastörfin. Eg hefði ímyndað mér, að það væri nóg að vér bærum kinnroða. hver fyrir öðrum, þó að vér ekki kveddum útlendinga til vitnis um amlóðahátt vorn og klaufaskap. Thomsen gamli kaupmaður var sá eini sem hélt dálítið uppi sóma vorum í kappsiglingunni. En af hinum tveim bátunum komst annar með herkjum miklum frá bæjarbryggjunni að bryggju Christensens og lá við sjálft, að hann liðaðist þar í sundur. Útbúningurinn var ekki betri en svo, að aðra stýrislykkjuna vantaði og átti 4 þuml. nagli úr Breiðfjörðsbúð að koma í hennar stað. Hásetinn sýndi ötulleik í því að stjaka bátnum á bryggjuna í staðinn fyrir frá henni. Eins má geta þess, að báturinn var ekki tilbúinn að fara út, fyr en 1/2 tíma eptir að hinir voru lagðir á stað. Hinn báturinn gat ekki „vent“ þegar til kom og formaður hafði stakt lag á því að láta seglin kala á víxl. Datt mér ekki annað í hug en að það þyrfti að sækja bátinn og skipshöfnina út á Svið og hefði formanni kappsiglingarnefndarinnar verið nær að biðja foringja Heimdalls að láta eimbátinn sveima þar en að kveðja þá til dómstarfa. Svona fór nú um sjóferð þá.

Þess ber að geta að væntanlega hefur ekki skort hæfa siglingamenn eða seglbúna báta í Reykjavík á þessum árum heldur hafa menn látið sig vanta í keppnina. Árabátar Íslendinga voru margir búnir seglum og áhafnir sem kunnu að beita þeim spöruðu sér með því erfiðið við að róa langar leiðir.

Annars var þjóðhátíðin 1898 merkileg fyrir margra hluta sakir. Árið áður hafði þessi hátíð verið tekinn upp í kringum byrjun ágúst sem liður í því að hver sveit ætti sína hátíð. Aðalatriðin á þessum hátíðum, í Reykjavík og annars staðar, voru kappreiðar og glíma, en fyrir þeim íþróttum var aldalöng hefð á Íslandi. Meðal þess nýmælis sem boðið var upp á í Reykjavík 1898 voru auk siglinga, knattspyrna og hjólreiðar en það mun líka vera elsta skráða dæmið um hjólreiðakeppni á Íslandi.

Umfjöllun um keppnina:

Share this Post