Hátíð hafsins – Úrslit

/ júní 3, 2007

{mosimage}Hátíð hafsins eða hinn svokallaði Eyjahringur var sigldur laugardaginn 2. júní. Það blés full byrlega. Í hviðum fór vindur í 20 m/s þegar ræsa átti keppni um hádegi. Það er sosum hægt að sigla í svoleiðis, en líklegt að menn rífi segl eins og sjá mátti á frestunarfánanum sem minnkaði óðfluga meðan hann hékk uppi…Fyrst var keppni frestað til kl. 14 og svo aftur til kl. 17. Þá hafði vind lægt nægilega til að halda keppni. Reyndar heltust nokkrar áhafnir úr keppni vegna barna- og stúdentsafmæla. Það voru því aðeins fjórar áhafnir sem tóku þátt í keppninni þetta skiptið.


Brautin var þríhyrningur á ytri höfninni og svo Hjallasker, Sjöbauja, Akureyjarrif, Engeyjarrif, tveir beytileggir, tveir ríddsleggir og tveir belgleggir.


Úrslitin urðu sem hér segir (umreiknaður tími):

1. sæti Besta 1:27:43 (0)

2. sæti Dögun 1:29:28 (+1:45)

3. sæti Þerna 1:30:14 (+2:31)

4. sæti Lilja 1:34:24 (+6:41)

Keppnisstjórn hefur tekið uppá þeirri skemmtilegu nýbreytni að taka millitíma í braut. Þannig geta keppendur betur séð hvernig þeim gekk í hlutum brautarinnar.

Eftir litla þríhyrninginn var Dögun í fyrsta sæti en glutraði því niður. Ekki í fyrsta skipti eftir að þetta fyrirkomulag var tekið upp. Gárungarnir héldu því fram að áhöfnin á Dögun væri svo gömul að hún hefði ekki úthald í svona langa keppni. En það er annað sem vekur samt athygli, að Dögun setti ekki upp spinnaker á undanhaldinu í þeim hluta keppninnar. Kannski sigldi Dögun ekkert svo vel, frekar að Besta og Þerna áttu í nokkru brasi með að koma upp belg á þessum stutta legg. Lilja setti heldur ekki upp belg, hvorki á stutta leggnum né þeim langa vegna bilunar í upphalinu.

Auk hefðbundinna verðlauna, farandbikars og eignabikars, voru veitt sérstök aukaverðlaun sem skipstjórarnir voru látnir draga um. Það var skipstjóri Dögunar sem átti happadráttinn og hlaut áhöfnin Garmin GPS-tæki.

Eftir skemmtilega keppni kýldu áhafnir vambirnar með pylsum af grillinu.


Keppnisstjórn stóð sig frábærlega og færum við henni bestu þakkir!

Share this Post