Hátíð hafsins – myndir

/ júní 7, 2009

 

Það var hreint út sagt frábært veður á Hátíð hafsins, glampandi sólskin, hlýtt og frískur vindur… 

Átta bátar kepptu hring um Viðey. Að venju var startað með fallbyssuskotum undir lúðraþyt skipa í höfninni. Startið gekk misvel, sumir snéru hreinlega öfugt í startinu og sigldu í vitlausa átt, móti flotanum. Ögrun átti við vandamál í rúllufokkunni að stríða og sigldu lengi vel á stórseglinu einu saman. Tveir bátar tóku óvænt þátt í keppninni, skip á leið í Sundahöfn og lóðsbátur frá Höfninni. Það verður að segjast að skipstjórinn á lóðsbátnum var ekki í hátíðarskapi. Nærvera okkar fór greinilega mjög í taugarnar á honum og sýndi hann fáheyrðan dónaskap þegar hann sigldi umhverfis skúturnar og lagði sig fram um að gera keppendum á Hátíð hafsins lífið leitt. Hann lét ekki svo lítið að gelta í talstöðina. Við óskum honum til hamingju með daginn.

Að öðru leyti var dagurinn frábær. Strákarnir á Molanum áttu vænan siglingadag, komu siglandi frá Hafnarfirði, hirtu bronsið og sigldu aftur til Hafnarfjarðar. Áhöfnin á Lilju hlaut silfrið og áhöfnin á „litla krúsingdallinum“ Dögun hreppti gullið. Dregið var um verðlaun dagsins og hlaut áhöfnin á Díu forláta hníf (multi-tool).

Formaðurinn tók vel á móti áhöfnum eftir keppni með stöflum af vöfflum.  

Við þökkum öllum sem komu að keppninni, Landhelgisgæslunni fyrir ógleymanleg stört, keppnisstjóra, formanni og öllu aðstoðarfólki sem vann óeigingjarnt starf til þess að gera þennan dag frábæran. 

 

Þarna sést annar bátanna sem óvænt tóku þátt (reyndar má kannski segja að báðir hafi óvænt tekið þátt, líka Sigurborgin). 

Leitað bilunar í rúllufokku Ögrunar. 

Uppábúinn keppnisstjórinn um það bil að ausa úr kistli auðæfa sinna.

Áhöfnin á molanum baðar sig í bronsinu.

Liljumenn spegla sig í silfrinu. 

Áhöfnin á Dögun glottir gylltu brosi. 

Áhöfnin á Díu fékk forláta Multi-tool eins og áður sagði. 

 

 

Share this Post