Helstu atriði aðalfundar

/ janúar 22, 2009

Aðalfundur Siglingafélags Reykjavíkur – Brokeyjar árið 2008.
Haldinn í bráðabirgðaaðstöðu Brokeyjar fimmtudaginn 11. nóvember 2008.


Fundur settur. Formaður setti fund kl. 20:08.

Vífill Árnason var kosinn fundarstjóri. Magnús Waage var kostinn fundarritari.

Fundarstjóri athugaði hvort fundurinn væri löglega boðaður og á réttum tíma og lýsti aðalfundinn lögmætan.

1.

Tillaga til lagabreytinga.

Fyrir fundinum lá tillaga sem hefur áhrif á framkvæmd aðalfundar.

Formaður gerði grein fyrir tillögunni en í henni er kveðið á um breytingar á tveimur greinum laga félagsins þ.e. 8. og 11. grein. Þær verði:

8. gr. Aðalfund félagsins skal halda í janúar ár hvert og skal hann boðaður með minnst 14 daga fyrirvara. Aðalfundur er lögmætur ef löglega hefur verið til hans boðað.

Á aðalfundi, sem og á félagsfundum, skal kjósa sérstakan fundarstjóra.

11. gr. Reikningar félagsins miðast við áramót.

Ákvæði til bráðabirgða: Núverandi stjórn er falið að starfa áfram til loka aðalfundar. Aðalfundi skal frestað til 15. janúar 2009.

Orri Hilmarsson : Lýsir ánægju með hvernig starf klúbbsins hefur gengið, leggur til að framhaldsfundurinn verði tengdur einhverjum atburði til þess að fleiri mæti á aðalfundinn. Formaður: Lýsti ánægju með tillögu Orra.

Tillagan til lagabreytinga var samþykkt samhljóða.

2. Önnur mál:

Kristján formaður gerði grein fyrir stöðu félagsheimilsmála. Félagsheimili á Ingólfsgarði er nú í deiliskipulagi. Neðri hæðin gæti náð allt að 8 metra breidd og 30 metra lengd. Efri hæðin eitthvað breiðari.

Snorri gjaldkeri: Benti á að upphaflega tillagan var að hafa húsið á enda fingursins.

Snorri gjaldkeri dreifði reikningum félagsins sem miðast við tímabilið 1.10.2007-30.09.2008. Reikningarnir voru lagðir fram endurskoðaðir og samþykktir af stjórn.

Pampol siglingakeppnin mun setja mark sitt á starfsemi næsta árs. Það er mikil þörf á viðbótar bryggju vegna heimsóknarinnar en viðbúið að erfitt verði að fá hana.

Alls sátu fundinn 10 manns. Fundi var frestað til 15. jan kl 20:00.

Framhald aðalfundar Siglingafélags Reykjavíkur – Brokeyjar vegna ársins 2008,

haldinn í bráðabirgðaaðstöðu Brokeyjar fimmtudaginn 15. janúar 2009.


Fundur settur. Formaður setti fund kl. 20:08.

Vífill Árnason var endurkosinn fundarstjóri. Magnús Waage var endurkosinn fundarritari.

Fundarstjóri athugaði hvort framhaldsfundurinn væri löglega boðaður. Nokkrar umræður voru um boðunina og fram kom ósk um að aðafundir yrðu einnig boðaðir með rafpósti. Fundarstjóri lýsti fundinn lögmætan.
3.

Skýrsla stjórnar

Formaður, Kristján S. Sigurgeirsson flutti skýrslu stjórnar. Meðal atriða sem þar komu fram eru:

Lokið er einu besta siglingasumri Brokeyjar í langan tíma. Starfið hefur verið með ágætum og eiga félagsmenn og stjórn þakkir skyldar. Einkum þó Snorri Tómasson, gjaldkeri félagsins, fyrir áhuga og dugnað.

Aðstöðumálin hafa tekið mestan tíma stjórnar.

Í Nauthólsvík hefur verið unnið að viðhaldi. Vegna veggjakrots var húsið allt málað að utan og síðan blettað eftir þörfum. Inni var þrifið og gófin í sturtu og fataklefum máluð. Þá var unnið í girðingunni. – Leigusamningur Brokeyjar rann út sl. áramót, en allar líkur eru á að hann verði endurnýjaður, nú við Reykjavíkurborg, sem er að taka við eignunum af Flugmálastjórn. – Það þarf nauðsynlega að gera við þakið á skemmunum auk annara viðhaldsverkefna. Borginni hefur verið gerð grein fyrir því. – Þróun framtíðarhúsnæðis ÍTR í Nauthólsvík, þar sem Brokey er ætlað pláss, gengur hægt sem stendur.

Aðstöðumálin á Ingólfsgarði þokast áfram. Tillaga að deiliskipulagi fyrir byggingu félagsheimilis á garðnum verður lögð fyrir hafnarstjórn bráðlega.

– Á fundi með Faxaflóahöfnum nýlega kom fram að möguleiki er á að í sumar fáum við 90 metra öldubrjót í stað gömlu (60m) bryggjunnar okkar. Hana má setja upp með fingrinum á Ingófsgarði og festa á hana útleggjara sem klúbburinn á. Þá á Brokey í viðræðum við FFH um 10 metra útleggjara, m.a. vegna móttöku Paimpol keppendanna í sumar. – Gámarnir voru málaðir í sumar. Unnið er að því að fá hitaveitu í þá.

Kranadagar í vor og haust gengu vel í uppsátrinu í Gufunesi. Aðstaðan þar hefur á margan hátt reynst vel þó þar sé ekkert vatn og ekkert húsnæði.

Á siglinganámskeiðunum á Sigurvon voru 29 þáttakendur en í unglinganámskeiðunum tóku 35 þátt. Tveir leiðbeinendur unglinga voru sendir á kennaranámskeið til Englands. SÍL tók þátt í kostnaðinum af því þannig að þeir færðu okkur Topper Topas bát sem þeir áttu. Er þeim þakkaður stuðningurinn. Þar með á Brokey 3 slíka báta.

Keppnishald gekk vel í sumar.

Í keppnum kjölbáta sá Brokey um Hátíð hafsins, 17 júní, Faxaflóakeppni, Ljósanótt og 18 þriðjudagskeppnir. Áhafnir bátanna skiptu á milli sín keppnisstjórn á þriðjudögum og tókst það vel. Brokeyingar unnu bæði Íslandsmótið og hrepptu Íslandsbikarinn að þessu sinni.

Tveir Brokeyingar urðu Íslandsmeistarar á Topper Topas á Ísafirði og tveir Brokeyingar urðu í öðru sæti. Þeir unnu einnig lokamótið í Kópavogi þar sem sex Brokeyingar kepptu. Þytur var með fjóra keppendur og Nökkvi var með 10.

Sem dæmi um hvað starfsemin er mikil á góðum degi hjá Brokey má nefna að a.m.k. einn þriðjudaginn voru í kennslu og þjálfun 6 optimistar, 3 tópasar, zodiakkinn, og Sigurvon auk 6 báta í þriðjudagskeppni. Alls hafa því verið um 50 manns að sigla á vegum klúbbsins í einu.

Snorri rakti stöðu aðstöðusamninga : Nauthólsvíkursamningur við Flugmálastjórn rann út um áramótin. Samningur um gámahúsið á Ingólfsgarði rennur út 1.6.2009. Semja þarf um framhald hans fyrir febrúarlok. Nú er okkur hótað með leigu. Samningur um Gufunes rennur líka út í vor. Vitað er að Íslenska gámafélagið hefur fengið lengingu á sínum samningi til 2015.

Úlfur Hróbjartsson benti á að íþróttaiðkendur í Reykjavík ættu heimtingu á ókeypis aðgangi að íþróttamannvirkjum borgarinnar að ákveðnu marki. Það þyrfti að hafa í huga við gerð komandi samninga.


4.
Reikningar félagsins.

Snorri Tómasson gjaldkeri gerði grein fyrir reikningum félagsins.

Reikningarnirnir fyrir 2008 eru gerðir upp í tvennu lagi. Sá hluti sem lagður var fram á fyrri hluta aðalfundarins 2008-1 og síðari hlutinn fyrir október, nóvember og desember 2008-2. Reikningarnir hafa verið yfirfarnir og áritaðir af endurskoðendum og stjórn félagsins.

Snorri sagðist nú hafa gegnt stöðu gjaldkera í 5 ár og vildi gjarna skipta um hlutverk. Reikningarnir voru samþykktir með lófataki.
5.

Kosning stjórnar.

Tillaga fráfarandi stjórnar var eina tillagan sem kom fram. Hún var samykkt með lófataki.

Formaður: Kristján S. Sigurgeirson,

Aðalstjórn: Arnar F. Jónsson, Baldvin Björgvinsson, Ólafur Már Ólafsson og Snorri Tómasson.

Varamenn: Kjartan Ásgeirsson og Magnús Waage.

Kjartan kom nýr inn í stjórn en aðrir sátu fyrir.

Þorvaldur F Jónsson og Ólafur Njáll Sigurðsson voru kjörnir skoðunarmenn.


6.
Árgjald félaga.

Tillaga stjórnar var kr. 8.000,- fyrir fullgilda meðlimi en kr. 800,- fyrir nærfjölskyldu þeirra.

Ólafur N Sigurðsson bar upp tillögu um að fjölskyldugjaldið væri innifalið í 8.000 króna gjaldinu. Rökin væru að fjölskyldurnar færu mikið að sigla með meðlimunum, tækju jafnvel þátt í æfingakeppnum, og því rétt að þau væru á skrá hjá félaginu. Fjöldi félaga skiptir máli við útreikning á hlutdeild í tekjum af lottofé hjá ÍBR og því mætti ætla að tekjutap vegna niðurfellingar 800 kr aukagjalds jafnaðist upp með hækkun lottotekna.

Úlfur Hróbjartsson sagði að ÍSÍ væri nú að fara yfir félagatöl með það í huga að koma á réttu og samræmdu formi. Mörg dæmi væri um lygilega marga meðlimi íþróttafélaga.

Mikil umræða var um tillöguna og hvaða form ætti að vera á skráningu fjölskyldu-meðlima og hvaða fjölskyldumeðlimir gætu verið innifaldir. Hugmynd ÓNS er að miða við kjarnafjölskylduhugtak Hagstofunnar.

Breytingartillagan var samþykkt með níu athvæðum gegn fjórum. Nokkrir sátu hjá.
7.

Önnur mál.

Fram kom áskorun til stjórnar um að efla vetrarstarfið þar sem dofnað hafi yfir því vetrarstarfi sem aðrir siglingamenn (Kjölbátasambandið) hafa séð um.

Óformleg umræða var um stöðu siglinganna og íslensku siglingafélagnna en engar formlegar ályktanir eða tillögur lagðar fram.

Alls sátu fundinn 20 manns. Fundarstjóri sleit fundi kl: 22.45.

Share this Post