Hraðamet í logni

/ júní 27, 2010

 

Lífið hættir ekki að koma á óvart. Hverjum hefði dottið í hug að hraðamet yrðu sett í logni?

Það var logn um allan sjó þegar skipstjórafundur var haldinn fyrir Faxaflóakeppnina og allar spár gerðu ráð fyrir að það ætti eftir að lægja meira. Útlitið var ekki gott …

 

 

Keppnin uppá Skaga á sér langa sögu og er styrkt af Akranesbæ þannig að það var útilokað að halda keppni án þess að sigla þangað.

En það hafði engin trú á að hægt væri að fara á seglum uppá Skaga þetta kvöld, engin, ekki einu sinni keppnisstjórinn. Eftir miklar spekúlasjónir var ákveðið að ræsa og sjá svo til. 

 

Fyrir utan olíugarðinn frískaðist vindur og var stöðugur hliðarvindur alla leið uppá Skaga, allir á belg. Svo góður var vindurinn að 12 ára gömul hraðamet voru slegin á sléttum sjó. Með forgjöf sigldi Lilja á 1:36:00 og bætti met Svölu frá 1998 um þrjár sekúndur. Xena sigldi á tímanum 1:37:35 og bætti met Evu II frá sama ári um rúmar þrjár mínútur.

 

Þessi mikli hraði kom öllum í opna skjöldu, líka keppnisstjóranum. Það er víst ekki fordæmalaust að keppnisstjóri nái ekki að taka á móti keppendum uppi á Skaga. Í þetta sinn var keppnisstjórinn í Hvalfjarðagöngunum þegar fyrstu bátarnir komu í mark. Fremsti bátur var fenginn til að taka tíma keppenda og eftir miklar yfirheyrslur og spekúlasjónir voru tímarnir staðfestir og allir sáttir. Svo er spurning hvort SÍL staðfesti þessi hraðamet eða hvort leita þurfi staðfestingar úr GPS-tækjum.

 

 

 

Sléttur sjór en fánar blakta, besta keppnisveður í uppsiglingu. 

 

 

Frá ræsingu uppá Skaga. Tíðindalítil keppni. Fallegt veður, lítill vindur en vaxandi eftir því sem líða tók á. Allir leggir belgleggir á Faxaflóamóti þetta árið.

Share this Post