Hugleiðing

/ september 11, 2006

Nú þegar siglingasumrinu er að ljúka er rétt að líta yfir farinn veg.


Fram kemur á vefsíðu SÍL að alls hafa 11 bátar hlotið stig til Íslandsbikars. Þetta er umtalsverð fækkun frá fyrri árum þegar 16-17 bátar hlutu stig. 8 bátar tóku þátt í Íslandsmótinu í ár. 11 bátar tóku þátt í Íslandsmótinu í fyrra og 14 bátar árið 2003. Sama má segja um þriðjudagskeppnirnar. Þar hefur þátttaka einnig dregist saman svo eftir er tekið. Hvað veldur?


Margir nýir bátar hafa bæst í flotann. Bent hefur verið á að þeir séu stærri og þurfi því stærri áhöfn og stundum hafi tvær áhafnir sameinast í eina. En svo virðist sem stækkunin sé að hluta til fóðruð á nýliðum, eða bátum einfaldlega siglt fáliðuðum.


Það hafa líka margir bátar heltst úr lestinni. Ef bornir eru saman listar yfir þá báta sem tekið hafa þátt í bikarmótum undanfarin ár, þá vantar hvorki fleiri né færri en 15 báta á listann í ár: Borgin, Dedda, Eva II, Gulla granna, Míla, Nornin, Sæstjarnan, Sif, Sigurborg, Sigurvon, Skegla, Stína, Svala, Sygin og Ögrun. Þetta eru allt fantafínir bátar sem eftirsjá er í og sorglegt að sumir þeirra standa á þurru landi. Flestir bátanna heita reyndar nöfnum sem byrja á „S“ og flestir þeirra eru Secret. Eitt S-ið í viðbót. Og sumir þeirra urðu fyrir S-kaða og S-kemmdust og aðrir S-eldir burt. Þannig að ekki S-kíra bátana S-nafni!


Er mótahaldið orðið tilbreytingalaust? Er komin þreyta í mannskapinn? Ganga menn að hverju móti sem vísu, er þetta eins og í fyrra og þar áður og þar, þar áður? Vantar tilbreytingu og fjölbreytni? Þarf að stokka upp mótaskrána og brydda uppá nýjungum?


Fælir það frá í þriðjudagskeppnum að áhafnir séu látnar sjá um keppnisstjórn?


Sumir hafa nefnt að Túrbátunum hafi nánast verið vísað úr keppnum þar sem mótahaldið snerist meira og meira um hraðsigldari báta og allir farnir heim þegar Túrbátarnir komu í mark. Nú sést ekki Túrbátur í keppni.


Er barna- og unglingastarfið ekki að skila sér? Meðalaldurinn í siglingum er nokkuð hár og „nýliðarnir“ eru margir um eða yfir fertugt. Er barna- og unglingastarfið kannski loks að skila sér 20 árum síðar, þegar búið er að vinda úr síðustu bleyjunni og krakkarnir orðnir sæmilega læsir? Undantekningin sem sannar regluna er áhöfnin á Þernu. Þeir sigla nú eina Secret-bátnum í keppni, enda heitir hann ekki Serna.


Testosteronið flæðir í keppnum og þær eru fyrir vikið e.t.v. ekki það fjölskyldusport sem ætla mætti. Kvenfólk og börn eru sjaldséð í keppni. Krafa nútímans er að fjölskyldan noti frítímann saman og þá eru siglingakeppnir, í þeirri mynd sem nú er e.t.v. ekki hentugar. Þó ekki sé komin mikil reynsla á Ljósanóttina þá var þátttaka góð og vel látið af þeirri uppákomu. Þarf að tengja keppnir einhverju skemmtilegu sem höfðar til allrar fjölskyldunnar?


Er trendið meira krús – minni keppni?


Eða er þetta bara veðrið… eða eitthvað allt annað?


Er þetta taugaveiklun í þeim sem þetta skrifar, er þetta bara normal? Hafa menn upplifað svona sveiflu áður?


{moscomment}

Share this Post