Hvað er að gerast?

/ júlí 14, 2006

Ekki vantar fréttir af skútusiglurum þessa dagana, því miður segja fréttamiðlar helst ekki frá neinu nema það sé neikvætt. En hvað gerðist og hvers vegna?
Smelltu á meira af þú vilt meira.

Azawakh 3 fór vitlausu megin við Akurey og stefndi á Hólmasundið sem við vitum öll að er ófært skútum sem rista djúpt. Þar er þó vel hægt að fara í gegn en maður verður að vera viss um hvar gatið er. Auðvelt er fyrir óvana að ruglast á Akurey og Engey þegar komið er úr þessari átt að Reykjavík. Hann fór bara vitlausu megin. Það var lán í óláni að einhver björgunarsveitarbátur var þarna og hreinlega varnaði honum því að fara þá leið sem hann ætlaði. Hefði Azawakh 3 siglt á fullum seglum í Hólmasundið þá hefði hann brotið kjölinn af og restin af skútunni farið í druslur. Amblard Jean-Pierre telst því vera heppinn.

Af viðræðum við frönsku siglarana virtist nokkuð ljóst að þótt þeir væru á dýrum fleyjum þá voru þeir ekki með dýr kort. Það virtist enginn vera með opið fyrir Íslandskort í GPSplotter, þeir voru flestir bara með eitthvað á pappír. Auðvitað á maður að vera með pappírskort en það er ekki verra að sjá á plotter hvar maður nákvæmlega er. Skrítið að tíma ekki að borga 10-20þús. fyrir tölvukort af Íslandi, mér finnst það ódýrasta tryggingin.

Magnolia IV, eina tvíbytnan í keppninni kom til Reykjavíkur til að skoða hjá sér botninn. Þeir urðu bara varir við mikið brothljóð úti á sjó og annað rýtingsborðið (stungukjölur) reyndist brotið þegar að var gáð. Þeir komu sem sagt við í Reykjavík bara til að sjá hvort það hefði brotið eitthvað út frá sér. Sennilegast sigldu þeir á hval eða eitthvað rekald. Þeir ætla bara að sigla til baka með eitt, ekkert mál.

Vonandi eru allar skúturnar komnar í var, það er ekkert sjóveður, hinar sem flúðu til hafnar í gær, gott hjá þeim!

Hákarlinn held ég að hún heiti litla skútan sem hvolfdi við Geldinganesið. Þetta er nú bara… Einhver að sigla á kænu en kann ekki að rétta hana við. Álíka gáfulegt og að vera að hjóla og kunna ekki að rétta reiðhjólið við.
Því miður birtist alltaf fólk á hverju ári sem lendir í skrítnum vandræðum eingöngu vegna kunnáttuleysis. Númer eitt þá var ekkert siglingaveður fyrir byrjendur á lítilli kænu. Númer tvö þá ætti fólk að vera búið að fara á grunnnámskeið. Númer þrjú, þeir voru í vestum gott, gott.

Áhugi á siglingum er greinilega að aukast jafnt og þétt þótt okkur finnist það stundum ekki vera svo. Áhugaleysi íþrótta og tómstundaráða er hins vegar meira en oft áður. Sumstaðar hefur tekist að halda hlutunum í lagi til dæmis í Nauthólsvík. Annarsstaðar hefur dregið úr eins og í Kópavogi. Siglingakennsla hefur hins vegar ekki fylgt eftir stækkun höfuðborgarsvæðisins sem nær orðið eiginlega samfellt upp á Akranes og lengst suður með sjó. Árum saman hefur verið beðið um siglingaaðstöðu nærri Geldinganesi en svarið verið þvert nei. Það er ekki heillavænlegt að ætlast til þess að fólk úr þessum hluta borgarinnar fari alla leið í Fossvoginn til að sigla þegar þessi frábæra aðstaða er þarna við sundin bláu. Við þurfum að halda áfram uppbyggingu siglingaaðstöðu á fleiri stöðum. Áhuginn minnkar ekki með fleiri íbúum, hann eykst.

Siglingasambandið má endilega drífa í að koma fræðsluefninu og námskeiðakerfinu í gang eins fljótt og auðið er. Þannig náum við helst að koma í veg fyrir óhöpp í íþrótt sem getur auðveldlega verið án óhappa bara ef siglingafólk hefur fengið rétta þjálfun. Fólk laðast líka að góðum og vel skipulögðum námskeiðum, þannig fjölgar í siglingaíþróttinni.

Share this Post