Jessica Watson – langar í hring

/ október 20, 2009

Eins og flestir vita er hin 16 ára Jessica Watson lögð af stað í siglingu umhverfis jörðina. Ætlun þessarar áströlsku stelpu er að verða yngst til að sigla þessar rúmu 22 þúsund sjómílur. Þessar tilraunir kornungs fólks til að setja met eru afar umdeildar. Í fersku minni er mál hollenskrar stelpu sem var stöðvuð af þarlendum yfirvöldum. Yfirvöld í Ástralíu voru ekki hrifin af fyrirætlunum Jessicu, sérstaklega ekki eftir að hún lenti í árekstri við flutningaskip þegar hún var á æfingasiglingu. Margir töldu hana hafa sofnað og hún væri einfaldlega ekki nógu þroskuð til að takast á við úthöfin og þær erfiðu vökur sem sóló-sigling krefst. Við óskum henni að sjálfsögðu góðrar siglingar og vonum að hún komi heil heim. 
Sett hefur verið upp vefsíða þar sem hægt er að fylgjast með ferðum hennar … og jafnvel kaupa varning/minjagripi. Það verður nú að segjast að skútan er mjög krúttleg, bleik og fín.

Share this Post