Kænudeildin á góðri siglingu

/ júní 26, 2009

Það er mikið um að vera á vegum kænudeildar Brokeyjar í Nauthólsvíkinni þessa dagana. Um tíu ungir siglingamenn taka þátt í æfingahóp sem æfir reglulega seinnipartinn og námskeiðin hafa verið vel sótt það sem af er sumri. Nú er tveimur fyrstu námskeiðunum nýlokið og hafa fimm til átta krakkar lagt þar stund á siglingaíþróttina undir öruggri handleiðslu þjálfaranna Önnu og Kára.

Myndir frá starfi kænudeildar í sumar er hægt að skoða með því að smella hérna.

Miðsumarmótið er á morgun og næstu vikurnar verður nóg að gera. Æfingabúðir Nökkva á Akureyri hefjast í þarnæstu viku og í beinu framhaldi af þeim verður keppt í kænusiglingum á landsmóti UMFÍ. Verður spennandi að sjá hvernig Brokeyingum vegnar í þeirri keppni. Aðeins viku eftir landsmótið er síðan sumarmót sem Brokey heldur í Fossvoginum.

Það eru því spennandi vikur framundan hjá öflugri kænudeild og vonandi að sem flestir nái að taka þátt í mótum sumarsins. Við hvetjum að sjálfsögðu alla félagsmenn til að mæta á keppnirnar og styðja kröftuglega við bakið á okkar fólki. 

 

Share this Post