Kænudeildin

/ mars 6, 2009

Kænusiglingar eru skemmtileg íþrótt fyrir fólk á öllum aldri. Allir geta stundað kænusiglingar og hægt er að sigla nánast árið um kring. Það er bara spurning um réttan útbúnað og bát við hæfi miðað við stærð og þyngd siglingamannsins. Brokey hefur byggt upp aðstöðu til kænusiglinga í Nauthólsvík og þar er hægt að leigja kænur félagsins þegar þær eru ekki í notkun á námskeiðum. Í Fossvoginum eru kjörnar aðstæður fyrir kænusiglingar, grunnsævi, engin umferð stærri skipa, gott skjól fyrir haföldum og stutt í land.

Brokey heldur reglulega námskeið í kænusiglingum fyrir börn og unglinga allt sumarið. Félagið er líka með æfingahóp sem æfir allt sumarið. Nánari upplýsingar er hægt að sjá með því að smella á tenglana hérna til vinstri.

Kænur eru opnir bátar með lausan kjöl. Kænur eru án kjölfestu þannig að siglingamaðurinn verður sjálfur að beita sér gegn átaki vindsins í seglin. Þetta getur reynt heilmikið á líkamann ef seglum er beitt til hins ítrasta. Siglingamaðurinn þarf að vera snöggur að meta aðstæður og breyta um stöðu til að halda jafnvægi bátsins. Í kænusiglingum þarf alltaf að gera ráð fyrir því að maður getur dottið í sjóinn og því þarf fatnaður að taka mið af því. Þurr- og blautbúningar eru algengir en á sumrin er oftast nóg að vera í hlýjum nærfötum og með föt til skiptanna. Björgunarvesti eru að sjálfsögðu skylda.

Brokey á gott safn kæna af ýmsum gerðum sem henta öllum aldursflokkum. Minnstu bátarnir eru af Optimist-gerð og henta börnum og unglingum sem eru að stíga sín fyrstu skref í íþróttinni. Þeir eru notaðir á námskeiðum Brokeyjar. Félagið á líka þrjá Laser-báta með þrenns konar seglabúnaði fyrir einn siglingamann. Að auki á félagið fimm Topper Topaz sem eru hraðskreiðir léttir bátar fyrir einn til tvo siglingamenn.

Nánari upplýsingar er hægt að nálgast með því að senda tölvupóst á netfangið brokey@brokey.is.

Share this Post