Kjölbátar

/ mars 6, 2009

Kjölbátasiglingar eru í senn íþrótt, afþreying og lífstíll. Kjölbátar eru skilgreindir sem lokaðir bátar með þyngdan kjöl og geta verið allt frá litlum átján feta Micro-bátum upp í áttatíu feta Ameríkubikarsbáta. Sumir eru hannaðir sem lystisnekkjur með fallegum innréttingum og miklu rými innanborðs, meðan aðrir eru sérhannaðir keppnisbátar með lágmarksyfirbyggingu. Sumir kjölbátar eru með búnaði sem gerir að hægt er að sigla þeim einhendis, en oftast þurfa fleiri að koma saman í áhöfn til að sigla þeim svo vel sé.

Á Íslandi eru nokkrar reglulegar siglingakeppnir á hverju sumri. Dagsetningar siglingamóta sumarsins eru ákveðnar á siglingaþingi Siglingasambands Íslands í upphafi árs. Við þær bætast svo tilfallandi keppnir, hópferðir og ýmsar aðrar uppákomur sem tengjast kjölbátasiglingum.Til dæmis hefur skapast hefð fyrir því hjá Brokey að sigla um Víkina með ljósaseríur í mastrinu um kvöldið á menningarnótt meðan flugeldasýningin stendur yfir til að auka á hátíðleika kvöldsins.

Erlendis er algengt að bátar sömu gerðar keppi sín á milli en á Íslandi er langalgengast að keppt sé í opnum flokki og árangur metinn miðað við IRC-forgjöf sem Siglingasamband Íslands úthlutar fyrir Royal Ocean Racing Club í Bretlandi. Til að fá forgjöf þarf að fylla út þar til gert eyðublað með málum báts og seglabúnaðar og skila inn til SÍL í upphafi árs. Forgjöfina þarf svo að endurnýja á hverju ári. Ætlast er til þess að löglegt forgjafarblað þar sem fram koma upplýsingar um forgjöfina sé afhent keppnisstjórn á skipstjórnarfundi við upphaf hverrar keppni. IRC virkar þannig að sigldur tími er margfaldaður með forgjöfinni og niðurstaðan ræður því í hvaða sæti hver lendir. Það er því ekki sjálfgefið að sá sem er fyrstur í mark sigri keppnina.

Um allar siglingakeppnir á Íslandi gilda keppnisreglur Alþjóða siglingasambandsins auk fyrirmæla Siglingasambands Íslands. Auk þessara grunnreglna getur keppnisstjórn sett fram sérreglur um einstaka keppni sem koma þá fram í tilkynningu um keppnina. Keppnisreglurnar kveða meðal annars á um það hver á réttinn, löglegar merkingar á bátum og kærur og refsingar fyrir brot á reglunum.

 

Share this Post