Menningarnótt 2007
{mosimage}Eins og í fyrra munum við taka þátt í flugeldasýningu Menningarnætur. Við skreytum skúturnar með seríunum, líkt og í fyrra. Seríurnar er hægt að setja beint á geyminn eða hvað annað sem gefur 12 V. Athugið að ef ekki kviknar á seríunni, prófið þá að skipta um pól. Serían virkar bara á annan veginn. Gott er að koma seríuinni upp vel í tíma.
Flugeldasýningin mun hefjast um kl. 23:00. Flugeldunum verður skotið upp af pramma aftan á varðskipinu Tý. Skipið verður staðsett um 1 km fyrir utan Sólfarið. Við komum okkur tímanlega á staðinn og munum dóla okkur miðja vegu milli lands og Týs. Alls ekki nær Tý en 130m. Óhætt er að kveikja á seríunum áður en lagt er úr höfn. (Seríurnar eru með díóðum sem eyða nánast engu rafmagni).
Flugeldasýningin mun hefjast um kl. 23:00 eins og áður sagði með því að einu skoti (ekkert ljós, bara hvellur) verður hleypt af. Um leið kveikjum við á blysunum sem við fáum frá hjálparsveitinni. Passið bara að halda blysunum útbyrðis og undan vindi. Lesið leiðbeiningarnar á blysinu. Á sama tíma verður „foss“ á varðskipinu og slökkt verður á götuljósum við Sæbrautina. Blysin loga í um eina mínútu. Athugið að blysin verða sjóðandi heit. Gott er að hafa vatn (sjó) í fötu um borð til að kæla blysið. Þegar blysin brenna út hefst fjörið.
Til stendur að hafa félagsheimilið opið gestum og gangandi. Það verður opnað í síðasta lagi kl. 21:30. (Þeir sem hafa lykla að húsin geta að sjálfsögðu farið inn þegar þeim hentar). Á boðstólum verða vöfflur og önnur hressing (þó ekki þessi sem ekki má nefna. Það verður hver að sjá um eftir smekk).
Sjáumst hress og góða skemmtun!