Mótaskrá kjölbáta 2010

/ febrúar 17, 2010

Eftirfarandi er mótaskráin með dagsetningum sem samþykktar voru á siglingaþingi Siglingasambands Íslands 13. febrúar 2010. Þær eru með þeim fyrirvara að keppnir kunna að færast til ef veður hamlar. Í öllum keppnum er keppt samkvæmt kappsiglingafyrirmælum Alþjóða siglingasambandsins, Siglingasambands Íslands og keppnisfyrirmælum sem eru kynnt á skipstjórnarfundi fyrir keppni. Keppnirnar eru breytilegar milli ára og því ber að taka þeim lýsingum sem hér birtast með fyrirvara.

Opnunarmót kjölbáta

Reykjavíkurhöfn – Hafnarfjörður, laugardaginn 15. maí
Umsjón: Þytur – Hafnarfirði
(NORúrslit – myndir)
Opnunarmótið er fyrsta mót sumarsins og gefur árangur þar stig til Íslandsbikarsins. Síðustu ár hefur keppnin farið þannig fram að lagt er upp frá Reykjavíkurhöfn um morguninn og siglt út fyrir sexbauju (utan við Gróttu) og svo til Hafnarfjarðar, rúmlega þrettán sjómílna leið. Keppnin tekur á bilinu þrjá til fimm tíma. Keppnin er opin öllum kjölbátum með gilda IRC-forgjöf frá SÍL. Veitt eru verðlaun í einum flokki fyrir fyrsta, annað og þriðja sæti.

Reykjavíkurmótið (þriðjudagskeppnir)

Reykjavíkurhöfn, alla þriðjudaga frá 18. maí til 7. september
Umsjón: Brokey – Reykjavík (úrslit – myndir)
Þriðjudagskeppnir Brokeyjar eru orðnar allþekktar en félagið hefur staðið fyrir æfingakeppnum af þessu tagi um árabil. Árangur í þessum keppnum veitir engin stig til Íslandsbikars og snið keppninnar er óformlegt og opið öllum kjölbátum. Ekki þarf að tilkynna sig til keppni nema á skipstjórnarfundi rétt áður en keppni hefst en þá er siglingaleiðin jafnframt kynnt. Síðustu ár hefur verið ræst klukkan sex síðdegis og tekur hver keppni tvo til þrjá tíma. Siglt er kringum eyjarnar á sundunum og eftir baujum í Víkinni. Keppt er samkvæmt IRC-forgjöf en gild forgjöf er ekki skilyrði fyrir þátttöku. Engin verðlaun eru veitt fyrir stakar keppnir en sigurvegari mótsins (samanlagður árangur úr öllum keppnunum) hlýtur veglegan bikar í lok sumars.

Hátíð hafsins

Reykjavíkurhöfn, laugardaginn 5. júní
Umsjón: Brokey – Reykjavík (NORúrslitmyndir)
Á Hátíð hafsins í Reykjavík, daginn fyrir sjómannadaginn, stendur Brokey fyrir siglingakeppni á sundunum síðdegis. Yfirleitt er siglingaleiðin sigld kringum eyjarnar og eftir baujum í Víkinni. Keppnin er því með svipuðu sniði og þriðjudagskeppnirnar. Keppnin er opin öllum kjölbátum með gilda IRC-forgjöf. Veitt eru verðlaun í einum flokki fyrir fyrsta, annað og þriðja sæti.

Þjóðhátíðarmót

Reykjavíkurhöfn, fimmtudaginn 17. júní
Umsjón: Brokey – Reykjavík (NORúrslitmyndir)
Brokey stendur fyrir stuttu, áhorfendavænu siglingamóti þjóðhátíðardaginn. Keppnin fer fram í Víkinni og kringum eyjarnar og tekur um klukkustund að jafnaði. Mótið er með sama sniði og þriðjudagskeppnirnar og gefur ekki stig til Íslandsbikars. Keppt er með IRC-forgjöf. Veitt eru verðlaun fyrir fyrsta, annað og þriðja sæti í einum flokki.

Faxaflóamótið

Reykjavík – Akranes, helgina 25. og 26. júní
Umsjón: Brokey – Reykjavík (NORúrslitmyndir)
Faxaflóamótið hefur verið fastur liður í dagskrá skútusiglinga á Íslandi um áratugaskeið. Keppnin skiptist í tvennt: sigldur er einn leggur frá Reykjavík til Akraness fyrri daginn, tæplega ellefu sjómílna leið, og síðan til baka seinni daginn. Annar leggurinn er beinustu leið en hinn flóknari. Veitt eru verðlaun fyrir fyrsta, annað og þriðja sæti í einum flokki fyrir sigur hvorn daginn og fyrir samanlagðan árangur báða dagana. Keppnin veitir stig til Íslandsbikarsins og er opin öllum kjölbátum með gilda IRC-forgjöf.

Midnight Sun Race

Siglufirði, laugardaginn 10. júlí
Umsjón: Nökkvi – Akureyri (Aflýst)
Midnight Sun Race er metnaðarfull alþjóðleg siglingakeppni sem verður haldin í annað sinn á Íslandi í sumar. Keppt verður í þremur stærðarflokkum og siglt frá Siglufirði, umhverfis Grímsey (norður fyrir heimskautsbaug), og aftur til baka, 75 sjómílna leið án áningar. Keppnin er opin öllum kjölbátum 32 feta og stærri og gefur stig til Íslandsbikars. Tilkynna þarf um þátttöku með fyrirvara. Nánari upplýsingar er að finna á vefnum icesun.is.

Sumarmót

Reykjavík – Kópavogur, laugardaginn 17. júlí
Umsjón: Ýmir – Kópavogi (NORúrslitmyndir)
Að þessu sinni verður keppnin með því sniði að sigldar verða tvær umferðir á brautum í Skerjafirði. Keppnin er opin öllum kjölbátum með gilda IRC-forgjöf og veitir stig til Íslandsbikars. Veitt eru verðlaun fyrir fyrsta, annað og þriðja sæti í einum flokki.

Íslandsmót

Reykjavík, vikuna 3.-8. ágúst
Umsjón: Brokey – Reykjavík (NORúrslitmyndir)
Íslandsmótið er óneitanlega hápunktur siglingasumarsins. Keppnin skiptist í nokkrar umferðir og keppt er á braut kringum baujur. Veitt eru verðlaun fyrir fyrsta, annað og þriðja sæti í einum flokki. Sigurvegarinn hlýtur auk þess hinn eftirsótta Íslandsmeistaratitil í siglingum. Íslandsmótið er opið öllum kjölbátum með gilda IRC-forgjöf og veitir stig til Íslandsbikarsins.

Lokamót

Reykjavík, 12. september
Umsjón: Ýmir – Kópavogi (NORúrslitmyndir)
Lokamótið setur punktinn aftan við hvert siglingasumar. Síðustu ár hefur verið siglt sem leið liggur frá Reykjavík til Kópavogs og tekur keppnin venjulega tvo til þrjá klukkutíma. Keppnin er opin öllum kjölbátum með gilda IRC-forgjöf og veitir stig til Íslandsbikars.

Mótaskrána 2009 með tenglum á úrslit og myndir er hægt að skoða hér.

Share this Post