Námskeiði lokið

/ nóvember 4, 2011

Líkt og komið hefur fram á vef SÍL fékk Anna Kristófersdóttir styrk Alþjóða ólympíusambandsins til að sækja námskeið í skipulagi og stjórn landsáætlana um siglingaþjálfun (National Sail Training Programme) á vegum Alþjóðasiglingasambandsins. Námskeiðið, sem stóð í átta vikur, fór fram í Rockley-siglingaakademíunni í Poole, Bretlandi. Hugmyndin er að Anna muni nýta sér þessa þekkingu til að stuðla að bættri þjálfaramenntun og siglingaþjálfun og veita aðstoð við skipulagningu siglinganámskeiða um land allt á vegum SÍL næstu misseri. 

Síðustu þrjú ár hefur Anna unnið sem siglingaþjálfari Brokeyjar í Nauthólsvík og séð þar bæði um siglinganámskeið og þjálfun æfingahóps ásamt fleirum. Hún lauk þjálfaramenntun hjá UKSA í Bretlandi árið 2009 og er með kennaramenntun frá Kennaraháskóla Íslands. Hún hefur þannig verið lykilmanneskja í þeirri miklu uppbyggingu kænustarfs sem átt hefur sér stað innan vébanda Brokeyjar undanfarin ár. Eftir þennan síðasta áfanga munu önnur siglingafélög á landinu einnig fá að njóta hæfileika hennar sem verður án efa mikil lyftistöng fyrir íþróttina á Íslandi á komandi árum.

Hérna má sjá viðtal við Önnu á ISAF TV.

Nánari upplýsingar um námskeiðið má finna á vef ISAF.

Share this Post