Nauthólsvík

/ ágúst 30, 2006

Nokkrir stjórnarmenn hittust og litu á hús, aðstæður og eigur okkar í Nauthólsvíkinni nýlega. Þar hefur Friðrik Örn Guðmundsson staðið fyrir góðu starfi í sumar. Kænudeildin er auðvitað þar til húsa ásamt fleirum. Þar eru kæjakræðarar með aðstöðu og einnig kappróðrarmenn. Það var ánægjulegt að sjá hversu vel er gengið um þetta annars lúna og lítt glæsilega húsnæði. Augljóst er að margir kjölbátar geta verið þar í vetur í góðu yfirlæti. Rafmagn, vatn, girðing og inniaðstaða.


Við hittum þar líka kela bátasmið sem hefur verið að smíða bát úr harðviði síðan sá sem þetta skrifar man eftir sér. 38 fet skal hann vera hvorki meira né minna. Því miður er báturinn ekki lengra kominn en svo að hann myndi ekki einu sinni fljóta. Okkur fannst augljóst að keli þarf áhugasama skipasmiði með sér í félagsskap til að ná nokkurntíman að klára gripinn í þessu lífi.

Varðandi kjölbátana þá er nóg pláss í portinu fyrir þá sem eru með sína báta á hjólum. Það er verra með hina, erfitt að koma þeim þangað.

Húsnæðið er í sjálfu sér þolanlegt fyrir þá starfsemi sem þar er núna en þakið þarf að endurnýja og við þurfum að tala við húsafriðunarnefnd. Þar væri hægt að fá fjármagn og mikið hefur verið talað um að tapa ekki þessum síðustu minjum um veru hersins hér á landi. Ástandið á húsinu er reyndar þannig að það er núna eða aldrei.

Sögur herma að þarna hafi margt merkilegt gerst, Winston Churchill hafi hitt menn þarna til skrafs og ráðagerða. Þaðan hafi flogið flugvélar sem urðu til þess að Enigma dulkóðunarvél þýska kafbátaflotans náðist og fleira merkilegt sem olli straumhvörfum í seinni heimsstyrjöldinni. Það er eiginlega út í hött að þarna skuli ekki komið upp safni sem myndi laða að mikinn fjölda ferðamanna. En þá þarf náttúrulega að byggja nýtt yfir siglingaíþróttina, róðurinn og allt það.

Share this Post