Niðurstaða komin á Kýpur

/ júní 5, 2009

Nú er komin niðurstaða á Kýpur eftir að keppnum dagsins var aflýst sökum of mikils vinds. Eftir alls sex keppnir er ljóst að Kýpur, Malta og Mónakó röðuðu sér nokkuð örugglega í efstu sætin í öllum flokkum. Kýpur átti raunar bestu möguleikana þar sem þeir eru með sex  keppendur í hverjum flokki á móti mest þremur frá hinum.

Í Laser Standard karla varð engin breyting á fyrstu þremur sætunum í öllum keppnum og gullið hreppti heimsmeistarinn frá því í Danmörku í fyrra, Pavlos Kontides frá Kýpur, en Mónakó hirti bæði silfur og brons. Íslensku strákarnir náðu ágætum árangri; Arnar Freyr endaði í 12. sæti og Björn Heiðar og Gauti Elfar í 14. og 16. sæti af átján keppendum.

Í Laser Radial kvenna náði Natasa Christodoulou nokkuð örugglega í annað gull handa Kýpur þótt hún lenti í öðru sæti í lokakeppninni. Malta fékk silfur og Kýpur brons.

Í Optimistum karla var talsvert meiri barátta um efstu fimm sætin sem lyktaði með því að Thomas Zammit Tabona frá Möltu krækti í gullið en Mónakó náði öðru og þriðja sæti. Okkar menn röðuðu sér í síðustu sætin eftir að hafa ekki náð að ljúka fjórðu og sjöttu umferð. Hins vegar gáfu þeir sannarlega góð fyrirheit í fimmtu umferð og Sigurður Sean náði hæst í 12. sæti í þriðju umferð.

Í Optimistum kvenna náði Marine Prat frá Mónakó að tryggja sér gullið þó að Kýpverjinn Maria Sarri hefði unnið þrjár fyrstu umferðirnar. Kýpur náði svo öðru og þriðja sæti.

Það var frá upphafi ljóst að það var á brattann að sækja að keppa gegn þessum öflugu siglingaþjóðum á heimavelli án mikils undirbúnings, en árangur okkar fólks gefur síður en svo tilefni til svartsýni. Það er vonandi að auknar vetraræfingar og öflug afreksstefna nái að skila þessum siglingamönnum sem hér reyndu sig við þá bestu í heimi áfram í alþjóðlegum keppnum í framtíðinni.

Share this Post