NOR: Hátíð hafsins

/ júní 1, 2011

Brokey stendur fyrir siglingakeppni á Hátíð hafsins í Reykjavík líkt og fyrri ár. Gert er ráð fyrir því að startað verði úr innri höfninni kl. 14:00 og sigld ein umferð á sundunum framan við Sæbrautina. Keppnin er meðal annars hugsuð til að vekja athygli á siglingaíþróttinni og er glæsilegt innlegg í hátíðahöldin. Tekið er við skráningum í athugasemdakerfinu hér fyrir neðan og í síma 864 2964

Myndin er frá því þegar bátarnir þyrptust út um hafnarkjaftinn í keppninni árið 2009.

Vakin er athygli á því að opnunarmót kæna verður haldið um morguninn sama dag í Hafnarfirði (NOR) og um að gera að mæta þangað og hvetja kænusiglara Brokeyjar áfram. 

Smellið á „Nánar“ til að skoða keppnistilkynningu.

HÁTÍÐ HAFSINS

Haldið af Siglingafélagi Reykjavíkur, Brokey á sundunum við Reykjavík 4. júní 2011

KAPPSIGLINGAFYRIRMÆLI

1 Reglur

Keppt verður samkvæmt: 
   a) Kappsiglingareglum ISAF 2009 til 2012
   b) Kappsiglingafyrirmælum SÍL 
   c) Kappsiglingafyrirmælum mótsins.

2 Auglýsingar

Auglýsingar eru leyfðar samkvæmt flokki C í Alþjóða kappsiglingareglunum.

3 Þátttökuréttur

Rétt til þátttöku hafa fullgildir félagar í siglingafélögum samkvæmt móta- og keppendareglum SÍL.

4 Þátttökugjald

Þátttökugjald á hvern þátttakanda (hvern áhafnarmeðlim) verður kr. 500,-

Þátttökugjald verður innheimt á skipstjórnarfundi. Ætlast er til að þátttakendur greiði keppnisgjald með seðlum, fyrir skipsstjórafund. Sjá 9. grein.

5 Tímaáætlun

4. júní: 
   Móttaka þátttökugjalds og afhending kappsiglingafyrirmæla frá kl. 12:30 – 13:00. 
   Skipstjórnafundur kl. 13:00. Viðvörunarmerki kl. 13:55

Bátar sem ekki ná að ljúka keppni innan klukkustundar eftir að fyrsti bátur kemur í mark falla sjálfkrafa úr keppni.

Tímasetningar geta breyst og eru tilkynntar á skipsstjórafundi, eða gegnum talstöð (rás 6 á VHF) ásamt merkjafánum. Keppni getur verið felld niður eða frestað til annars dags samkvæmt ákvörðun keppnisstjórnar.

6 Mælingar

Keppt verður samkvæmt IRC forgjöf og skal framvísa gildu mælibréfi fyrir alla báta.

7 Kappsiglingafyrirmæli

Kappsiglingafyrirmæli verða birt á skipstjórafundi.

8 Keppnisbraut

Keppt verður á sundunum við Reykjavík. Keppnisbraut verður kynnt á skipstjórnarfundi.

Sigld verður ein umferð.

Keppnisstjórn getur stytt braut meðan á keppni stendur. Tilkynning um slíkt fer fram í VHF-talstöð á rás 6.

Ef ræst er innan Reykjavíkurhafnar er eðlileg stefna beint út um hafnarkjaftinn. Bátar skulu ekki lúffa (regla 11) eða beita kappsiglingareglum með öðrum hætti til að sigla í veg fyrir aðra eða neyða þá til stefnubreytingar að óþörfu heldur sigla beint út um hafnarkjaftinn og gefa öðrum rúm til þess sama. Þegar aftasti hluti aftara báts, báta sem skarast, er kominn út fyrir hafnarkjaftinn þá gilda kappsiglingareglurnar með eðlilegum hætti.

9 Skráning

For-skráningar skulu berast til keppnisstjórnar fyrir kl. 21:00 þann 3. júní með athugasemdum við viðkomandi frétt á brokey.is eða með því að hringja í keppnisstjóra (sjá grein 14). Taka þarf fram nafn báts, nafn skipstjóra, fjölda áhafnarmeðlima, seglanúmer, forgjöf og félag sem keppt er fyrir.

10 Stigakerfi

Notað verður lágstigakerfi samkvæmt viðauka A í alþjóðakappsiglingareglunum.

11 Verðlaun

Veitt verða verðlaun fyrir þrjú fyrstu sætin.

12 Verðlaunaafhending

Verðlaunaafhending fer fram í félagsheimili Brokeyjar á Ingólfsgarði strax og úrslit verða ljós að lokinni keppni.

13 Ábyrgð og tryggingar

Allir sem taka þátt í mótinu gera það á eigin ábyrgð. Keppnisstjórn ásamt öllum þeim sem taka þátt í framkvæmd mótsins firra sig allri ábyrgð gagnvart tjóni sem kann að verða vegna þátttöku í mótinu.

Hver bátur skal vera tryggður með gildri ábyrgðartryggingu sem nær til þess tjóns sem orðið getur.

14 Frekari upplýsingar

Frekari upplýsingar fást hjá keppnisstjóra Snorra Tómassyni í síma 864 2964

Share this Post