Ást og friður á þriðjudegi

/ október 10, 2012

Þrír bátar sigldu „síðasta þriðjudag“ ársins, Sigurvon, Icepick 2 og Dögun. Stutt keppni í hægum vindi og indælu veðri, þríhyrningur og pulsa. Það bar helst til tíðinda að Dögun átti trúlega verstu ræsingu sumarsins. Dögun sat föst, í járnum (in irons (líka glæpsamlega lélegt start)) eina bátslengd frá bauju. Tveimur mínútum síðar skreið Dögun yfir ráslínu! En svo það sem ekki telst til tíðinda, þá sigraði Dögun keppnina.

Keppnisstjórn lagði keppendum fyrir að fyrstu tveir bátar yfir marklínu skyldu taka upp keppnisbaujurnar sem þjónað hafa okkur í allt sumar. Þeim var skutlað í land, nokkrum pizzusneiðum skolað niður og svo héldu nokkrir vaskir siglarar út aftur til að fylgjast með tendrun friðarsúlunnar. Kannski gaga en alla vega viðeigandi amen eftir efninu, síðustu kjölbátakeppni þessa árs.

Við höfum ekki lengur tölu á fjölda keppna á þriðjudögum þessa sumars, þær eru trúlega um 20. Fyrsta keppnin var haldin 15. maí og sú síðasta 9. október. Það spannar næstum sex mánuði!

Við þökkum keppendum og keppnisstjórum skemmtilegar keppnir á frábæru sumri. Ást og friður. Sjáumst á Sundunum næsta vor (eftir hálft ár)! 

Share this Post