Rólegt Opnunarmót

/ maí 16, 2005

Opnunarmótið, fyrsta siglingakeppni sumarsins, hófst klukkan 11 laugardaginn 14. maí. Þegar skúturnar runnu yfir startlínuna var lítill vindur í seglum þeirra sjö (að ég held) báta sem tóku þátt…

Keppnin var nokkuð jöfn út að sjöbauju sem átti að fara fyrir. Besta leiddi flotann áfram beitilegg að sexbauju, á þeirri leið var lítill og stundum enginn vindur. Einhverjir bátanna heltust úr lestinni á þessari leið enda lítið gaman að lyggja í logni heilan dag úti á Faxaflóa þegar veiðistöngin er ekki komin í bátinn.
Við sexbaujuna var uppi smá umræða um borð í Besta hvort ætti að hætta keppni og drífa sig í land. Þeir sem voru þar um borð áttu nefnilega að vera mættir í brúðkaup klukkan 14:00. Úr varð að þeir væru búnir að missa af kirkjunni hvort sem er og ákveðið að láta slag standa og treysta á veðurguðina, sem höfðu greinilega ákveðið að taka því rólega í tilefni dagsins.
Besta náði sexbaujunni um svipað leiti og félagi þeirra Arnþór kvæntist Bryndísi, eftir það gekk siglingin aðeins betur enda ekki beitivindur. Beiting og alda í logni fer ekki vel saman og gengur alltaf frekar hægt. Þá þarf maður að stilla mikið og tína til öll smáatriði í stillingum taktík og tjúni enda hefur maður nægan tíma í svoleiðis veðri. Sigld var stórskipaleið inn skerjafjörðinn í mjög léttum vindi sem dó næstum alveg á stundum. En í heildina gekk siglingin inn að Ými samt nokkuð vel. Markið var rétt við margfrægar grynningar sem nú eru grunnur nýrrar aðstöðu félagsins. Það er ánægjulegt að sjá framkvæmdir í gangi við uppbyggingu siglingaíþróttarinnar.
Ýmisfólk tók vel á móti siglingaköppum að venju með kaffi og meðlæti enda veitti ekki af eftir margra stunda siglingu, sem venjulega tekur um tvo tíma. Þegar fyrsti bátur kom í mark sást rétt grilla í þann næsta, enda kom hann í mark 70 mínútum síðar, og síðan komu þeir í mark koll af kolli með drjúgu millibili. Einhverjir höfðu hætt keppni og einhverjir hreinlega féllu á tíma.
Besta liðið hraðaði sér í brúðkaupsveislu um leið og þeir komu í mark, það var því góðgæti sem annars hefði horfið ofan í tíu átvögl sem varð eftir til skiptanna, á hlaðborði ýmis, fyrir hina sem á eftir komu.


kv.
Baldvin


(Fljótlega munu birtast myndir frá Opnunarmótinu)

Share this Post