Siglingaárið tekur á sig mynd

/ febrúar 26, 2018

Það er smám saman að komast mynd á siglingaárið 2018 og dagsetningar að skýrast. Það eru mjög margir spennandi viðburðir framundan og af nógu að taka fyrir kænufólk, krúsera og kappsiglara. Það var vel mætt á fund um dagskrá félagsins á Ingólfsgarði síðasta laugardag. Miklar umræður sköpuðust um einstaka viðburði siglingaársins og nokkrum dagsetningum var hnikað til. Áki formaður gaf stutt yfirlit yfir stöðuna í aðstöðumálum og Jón Pétur fór yfir nýliðið siglingaþing. Hér á eftir fara helstu atriði fundarins en dagskrána í heild er hægt að skoða hér á síðunni undir http://brokey.is/dagskra/.

Kænustarf allt árið (næstum því)


Við erum að lengja kænustarfið verulega frá því sem verið hefur og gerum ráð fyrir þremur þriggja mánaða tímabilum: vor, sumar og haust. Að vísu er enn eftir að ganga frá mörgum hliðum þessa nýja siglingaárs og ákveða hluti eins og þjálfun og umsjón, æfingagjöld, búnað og fleira. Það eru spennandi tímar framundan í kænusiglingum. 20 manna hópur frá fjórum siglingafélögum fer í viku æfingabúðir til Weymouth Sailing Academy í Bretlandi í lok mars. Við í Reykjavík erum með opnunarmótið í kænusiglingum 26. maí. Þytur sér svo um miðsumarmót 9. júní. Eftir er að ákveða stað fyrir æfingabúðirnar sem eru settar 30. júní til 8. júlí. Íslandsmótið verður svo á Akureyri 10. til 12. ágúst. Hulda Lilja Hannesdóttir mun taka þátt í heimsmeistaramóti World Sailing í Árósum 30. júní til 12. ágúst og verður spennandi að fylgjast með því hvernig henni gengur á þessu risavaxna siglinamóti. Lokamótið er sett 25. ágúst og Bart’s Bash verður 15. september. Þá verður haustönnin hafin hjá okkur. Henni mun ljúka með uppskeruhátíð fyrir kænusiglara og aðstandendur þann 24. nóvember.

Kranadagar vor og haust


Kranadagar afmarka kjölbátatímabilið hjá Brokey. Við gerum ráð fyrir því að taka til hendinni á bryggjunni 21. apríl og hífa í sjó í Gufunesi viku síðar, eða 28. apríl. Þá er eins gott að veðrið gefi færi á að botnmála. Eftir hífingu verður samkoma, grill og rabb á Ingólfsgarði. Kranadagur að hausti verður svo, með fyrirvara um veður og sjávarföll, þann 6. október. Ef allt gengur eftir verður lokabrokið haldið sama kvöld. Þetta gefur okkur 23 vikna siglingatímabil: geri aðrir betur!

Reykjavíkurmótið uppfært


Við erum að vinna í því að uppfæra Reykjavíkurmótið fyrir fimmtugsafmæli félagsins 2021. Við erum stolt af þessu flaggskipi félagsins og ætlum okkur að gera það eins flott og það getur orðið á næstu árum. Fundur um framtíð mótsins verður haldinn þriðjudaginn 3. apríl. Þar verða allar hliðar mótsins til umræðu, hvort sem það eru tímasetningar, keppnisstjórnin, forgjöfin, maturinn eða annað. Niðurstöður fundarins munu rata beint í NOR-ið fyrir mótaröðina sem verður gefið út skömmu síðar.

Siglingamótin okkar


Dagskrá og fyrirkomulag siglingamóta ársins var ákveðin á siglingaþingi SÍL 17. febrúar síðastliðinn. Samkvæmt þeirri áætlun verður Þytur með opnunarmótið í kjölbátasiglingum að vanda (siglt frá Reykjavík til Hafnarfjarðar) 19. maí, Brokey sér um opnunarmótið í kænusiglingum viku síðar eða 26. maí, Brokey verður auk þess með opið siglingamót fyrir kjölbáta á Hátíð hafsins í Reykjavík 2. júní; Þytur sér um miðsumarmót í kænusiglingum 9. júní, og 22.-24. júní verður hið vinsæla Faxaflóamót haldið í samstarfi Brokeyjar og Sigurfara á Akranesi. Æfingabúðir í kænusiglingum verða eins og áður sagði 30. júní til 8. júlí, en eftir er að ákveða hvar þær verða haldnar; aðalmót ársins, Íslandsmótin, verða svo 10. til 12. ágúst (kænusiglingar) á Akureyri og 14.-19. ágúst (kjölbátar) í Hafnarfirði; lokamót kæna verður 25. ágúst og lokamót kjölbáta 1. september, bæði í Kópavogi.

Norræna brjálæðið

Ef Reykjavíkurmótið er undanskilið verða engin kjölbátamót í júlí, sem er eins gott, því Ísland verður heitasti staðurinn fyrir kjölbátasiglingar í Norður-Atlantshafinu á þeim tíma. Þann 29. júní verður siglingakeppnin Viking Offshore Race ræst í Björgvin í Noregi. Keppt verður í þremur leggjum; fyrst frá Björgvin til Leirvíkur á Hjaltlandseyjum: þar verður svo annar leggurinn ræstur 1. júlí frá Leirvík til Þórshafnar í Færeyjum: þar sem þriðji leggurinn verður ræstur 6. júlí, frá Þórshöfn til Reykjavíkur. Hægt er að skrá sig til keppni í einum eða fleiri leggjum. Verðlaunaafhendingin verður svo 11. júlí í Reykjavík. Það er því von á stórum flota skipa og stórum hóp kátra kappsiglara í Reykjavík milli 10. og 12. júlí og líklegt að keppnin muni setja svip á bæinn.


Á sama tíma og kappsiglararnir hraða sér til Reykjavíkur munu allir krúserar og kútterar Norður-Evrópu flykkjast til Siglufjarðar þar sem Norræna strandmenningarhátíðin fer fram 4.-8. júlí. Þetta er sama hátíðin og var haldin undir nafninu Sail Húsavík árið 2011 og þótti takast gríðarlega vel. Þjóðlagahátíðin á Siglufirði verður samhliða strandmenningarhátíðinni. Þarna er von á skemmtilegri alþjóðlegri skútustemningu með klassískum skipum og nútímaskútum. Við hérna fyrir sunnan ætlum ekki að missa af fjörinu og hugsum okkur að fjölmenna til Siglufjarðar með hópsiglingu einhvern tíma á bilinu 28. júní til 3. júlí (þetta er þriggja sólarhringa sigling). Fyrsti undirbúningsfundur fyrir hópsiglinguna verður haldinn þriðjudagskvöldið 13. mars næstkomandi.

Fundir og mannfagnaðir

Að vanda eru margir viðburðir haldnir á vegum félagsins sem ekki felast í því að sigla eitthvað, bæði utan og innan siglingatímabilsins. Eins og áður sagði verður undirbúningsfundur fyrir hópsiglingu til Siglufjarðar haldinn þriðjudagskvöldið 13. mars. Þann 3. apríl verður svo mikilvægur fundur um framtíð Reykjavíkurmótsins þar sem við vonum að allir virkir þátttakendur í mótaröðum undanfarinna ára mæti og láti í sér heyra. Þann 21. apríl ætlum við að hlúa að bryggjunum okkar og viku síðar, eftir vel heppnaðan kranadag þann 26. apríl, ætlum við að eiga notalega stund á Ingólfsgarði. Við hugsum okkur að vera með skipulagða dagskrá á sjómannadaginn 3. júní og á þjóðhátíðardaginn 17. júní. Þótt engin keppni verði þessa daga ætlum við að nýta tækifærið til að kynna starfsemi félagsins fyrir almenningi.

Um haustið verður hefðbundið lokabrok haldið 6. október, ef allt gengur eftir með hífingar þann dag. Þann 25. október ætlum við að heiðra sjálfboðaliðana okkar sem vinna gríðarlega mikilvægt starf í þágu félagsins. 17. nóvember ætlum við að smakka á nokkrum jólabjórum og eiga góða kvöldstund saman. Þann 24. nóvember verður svo uppskeruhátíð kænudeildar þar sem iðkendur og aðstandendur koma saman. Jólasíldin verður laugardaginn 22. desember.

Share this Post