Skúta í (ó)skilum V

/ ágúst 18, 2008

Skútan á Höfn í Hornafirði er nú í skilum samkvæmt öruggum heimildum fréttaritara. Hingað kom maður sem hefur þann starfa að finna og endurheimta stolin skip og skemmtibáta. Staðfest er að þetta er skútan Elysee frá Lemmer í Hollandi. Það er einnig alveg á hreinu að sami aðili hefur haft milligöngu um sölu skútunnar. Hún er sem sagt seld.

Tveir þekktir skútusiglarar fóru austur til að aðstoða við að endurheimta og skoða skútuna. Það þurfti auðvitað að hífa hana upp og hreinsa eitt ár af gróðri af botninum ásamt almennri skoðun.

Lögreglan hefur boðið þeim sem þóttust eiga hana að leggja fram um það einhver gögn, en það hafa þeir ekki gert.

Ljóst er af þeim gögnum sem fundust um borð að skútunni var siglt upp Norðursjóinn, fram hjá Færeyjum, gæti hafa komið þar við og svo beint til Íslands. Sennilega með eitthvað innanborðs sem við flest viljum ekki sjá koma inn í landið.

Lögreglan verst allra frétta af málinu, bæði hérlendis og erlendis enda er málið allt hið vandræðalegasta fyrir opinbera aðila.

Share this Post