Smá misskilningur

/ janúar 25, 2009

Í gær fór fram smá æfing hjá kænudeildinni. Rétt um hádegið hvessti mjög hressilega. Einn siglaranna þurfti smá aðstoð við að komast til baka.

Þar sem Reykjavíkurborg er búin að grafa sundur rampinn sem liggur út úr húsi Brokeyjar ofan við Ylströndina, þá var ekki hægt að koma aðstoðarbát félagsins út úr húsi, og er ekki hægt enn…

Því var hringt til vinafélagsins Ýmis, sem er í Kópavogi. Ekki gátu félagar þar aðstoðað því þeirra bátur er ekki alveg í standi.

Var þá hringt í vini okkar í Hjálparsveit skáta í Kópavogi. Einhvernvegin bárust fréttir svo til 112 að börn væru í hættu á Fossvogi.

Tækjabíll slökkviliðsins, fjórir sjúkrabílar, tvær löggur (þær einu sem voru ekki uppteknar við mótmælastöðu) og her manns var við rampinn hjá Siglunesi þegar hina kænusiglarana tvo bar að landi.

Þeir spurðu náttúrulega bara hvað hefði komið fyrir!

Stjórn Brokeyjar hefur engar spurningar eða upplýsingar fengið frá framkvæmdasviði Reykjavíkurborgar venga þeirra framkvæmda sem fram fara framan við aðstöðu félagsins í Nauthólsvík.

Verið er að byggja upp moldarveggi sem skyggja á útsýni út á fjörðinn og draga þar með úr öryggi siglara því erfiðara verður á sjá út á voginn og fylgjast með.

Rampur sem liggur að aðstoðar og björgunarbát félagsins hefur verið grafinn sundur þannig að þar kemst enginn nema fuglinn fljúgandi.

Við kunnum framkvæmdasviði Reykjavíkurborgar litlar þakkir fyrir frammistöðuna.

Share this Post