Styrkur vegna landsliðsverkefna

/ maí 28, 2018

Hulda Lilja Hannesdóttir fékk á laugardaginn afhentan styrk frá félaginu að upphæð 200.000 kr. vegna þátttöku í heimsmeistaramótinu í Árósum í júlí og ágúst og fleiri landsliðsverkefna á árinu. Hluti af styrknum var framlag úr afrekssjóði ÍBR. Marcel Mendes da Costa íþróttafulltrúi afhenti Huldu styrkinn.

Hulda Lilja hefur um árabil verið öflugasta siglingakona landsins. Hún stundar nám við Háskólann í Reykjavík, en síðasta vetur var hún í skiptinámi í Árósum, þar sem hún æfði stíft fyrir heimsmeistaramótið í sumar. Hún stefnir ótrauð á Ólympíuleikana í Tókýó 2020 en mjög hörð samkeppni er um sæti á leikunum.

Hulda Lilja er ekki aðeins góður siglari, keppnismaður og félagi, heldur einnig frábær fyrirmynd fyrir unga siglara sem eru að stíga fyrstu skref í íþróttinni. Siglingafélag Reykjavíkur, Brokey, vill með styrknum þakka fyrir framlag hennar til íþróttarinnar og styðja hana til frekari afreka.

Félagið hefur áður stutt félaga til þátttöku í mótum erlendis, enda er það eina leiðin fyrir íslenskt siglingafólk að komast á alþjóðlega viðurkennd mót. Fyrr á árinu var ákveðið að stofna sérstakan afrekssjóð til að hægt sé að gera enn betur.

Share this Post