Þriðjudagskeppnir

/ september 10, 2013

AmericasCup

Til stendur að halda þriðjudagskeppnunum áfram meðan veður leyfir og bátar eru á floti. Reyndar lofar spáin ekki góðu þennan þriðjudaginn svo í staðinn væri hægt að sötra rjúkandi kaffi (eða öl) og horfa á beina útsendingu frá Americas Cup, keppni 5 og 6.

Keppnirnar hafa hingað til verið mjög spennandi og ekki mun sigur Bandaríkjamanna í síðustu keppni draga þar úr. Útsendingin hefst kl. 20:00 og fyrri umferð kl. 20:10. Til uppryfjunar. Nú og svo má líka fylgjast með boltanum 😉

Nú stendur yfir elsta og dýrasta siglingakeppni heims, Americas Cup. Keppnin er rúmlega 160 ára gömul. Oft hefur þessi keppni gefið tækifæri til tækninýjunga og þessi keppni er sönnun þess. Þessi risavöxnu koltrefjaskrímsli geta nánast flogið. 40 metra hátt stórseglið er í raun ekki segl, heldur eins og flugvélavængur og kemur bátunum á yfir 40 hnúta hraða. Spurning hvort orðið bátur sé réttnefni á þessi fyrirbæri.

Keppnin er þannig uppbyggð að haldin er áskorendakeppni og sigurvegari hennar fær að kljást við bikarhafann, lið Bandaríkjanna. Lið Nýjasjálands sigraði árskorendakeppnina örugglega, það var í raun engin keppni þar sem hin liðin stóðu þeim langt að baki.
Það er í höndum bikarhafans að setja reglur næsta móts og reglur um hvernig báta má smíða. Drjúgur hluti tímans fer í argaþras lögfræðinga. Í þetta sinn tókst Nýsjálenska liðinu að koma auga á glufu sem gerði þeim kleift að láta bátinn „fljúga“ á væng. Þras og meira þras og þetta þýddi að bandaríska liðið þurfti að breyta sínum bát svo hann gæti líka flogið, annars hefðu þeir aldrei átt sjens.
En eitthvað hefur bandaríska liðinu þótt á brattann að sækja og upp komst að liðsmenn höfðu komið blýi fyrir í bátum sínum í undankeppnum. Líklega til að þyngja þá fyrir vigtina og svo henda því úr og vera þá á mun léttari bátum. Þetta er að sjálfsöðgu ekki eins og heiðursmenn vilja keppa. Betra er að tapa með sæmd en sigra með svindli … ekki satt?
Vegna þessa svindls hefur alþjóðleg kærunefnd úrskurðað að tvö fyrstu stigin sem bandaríska liðið vinnur sér inn verða tekin af því, þ.e. bandaríska liðið þarf að vinna 11 keppnir til að sigra en Nýsjálenska 9 keppnir. Þegar þetta er skrifað hefur bandaríska liðið unnið eina keppni og það Nýsjálenska þrjár. Staðan er því 0–3. Trúlega hefur þó þessi sigur bandaríska liðsins blásið þeim von í brjóst og hjálpað sjálfstraustinu. Keppnin hefur verið jöfn og spennandi eins og tvíliðakeppni á að vera og oft reynt á stjórnborðsréttinn. Nýsjálendingar virðast hafa samhæfðari áhöfn og vendingar þeirra eru mun betri. Vendingar á þessum bátum kosta mjög mikið því báturinn nánast stoppar og tíma tekur að koma honum á skrið aftur.

 

1 Comment

 1. Fimmta keppnin var mjög athyglisverð. Nýsjálenska liðið snýtti því bandaríska.
  Startið var það eina sem gekk upp hjá bandaríska liðinu. Allar aðgerðir eftir það litu viðvaningslega út og maður trúði ekki að atvinnumenn í siglingum myndu gera sig seka um svona lélega taktík. Maður hefði haldið að taktikerinn hjá bandaríska liðinu og heimamaðurinn John Kostecki, alinn upp á San Francisko-flóanum væri með þetta. En hann er líklega of upptekinn á vindunum og hefur ekki mikinn tíma til að horfa í kringum sig, ólíkt taktikernum hjá nýsjálenska liðinu sem gerir ekkert annað en að spá í spilin og hvísla í eyrað á Dean Barker, skipstjóra nýsjálenska liðsins. Leggirnir eru svo stuttir og stutt á milli vendinga að það þarf að halda fókus allan tímann. Ein mistök og staðan gjörbreystist.

  Vending bandaríska liðsins á botnbaujunni var algjörlega misheppnuð og í raun eitthvað sem líð í sókn myndi hugleiða, ekki lið sem er á undan og ætti að verjast. Eftir þetta leyfði bandaríska liðið því nýsjálenska að sigla sinn sjó upp eftir brautinni og passaði ekki uppá að sigla vörn (e. cover), halda sig á milli keppinautar og næstu bauju.

  Þá rann upp fyrir manni ljós, svona hegðar sér dýr sem horfist í augu við dauðann, það grípur til örþrifaráða. Bandaríska liðið virðist gera sér grein fyrir að það getur ekki siglt hefðbundna vörn. Vendingar þess eru mun verri en þess nýsjálenska sem bætist við að nýsjálenska liðið er betra á beitileggjum. Bandaríska liðið getur því ekki siglt hefðbundna vörn og þarf að grípa til örþrifaráða.

  Þetta fékkst staðfest þegar bandaríska liðið beitti reglu um að hvort lið hafi eitt tækifæri til að fresta keppni. Sjötta keppnin var því ekki sigld í beinu framhaldi af þeirri fimmtu heldur frestað til næsta keppnisdags. Bandaríska liðið virðist vera ráðþrota. Það verður spennandi að sjá hvort breytingar verða gerðar á liðinu. Verður taktikerinn, John Kostecki látinn fjúka eða fær hann frið til að vinna? Verður Jimmy Spithill, skipstjóri bandaríska liðsins látinn fara eða ætla þeir að veðja á að liðið slípist til. Hefur það tíma til að slípast til? Það er ekki hægt að gera miklar breytingar á bátnum úr því sem komið er.

  Kannski er bandaríska liðið búið að elta það nýsjálenska allan tímann, þ.e. í þau þrjú ár sem undirbúningurinn hefur staðið. Það voru jú nýsjálendingar sem flugu fyrst og má segja að hafi leitt keppnina eftir það. Þó bandaríska liðið sé búið að æfa stíft á tveimur bátum virðist það ekki duga á móti þeirri keppnisreynslu sem það nýsjálenska hefur eftir undankeppnina. Allar manúveringar eru miklu mýkri og betri hjá því nýsjálenska.

  Það sem stefndi í að vera jöfn og spennandi keppni virðist vera að breytast í leik kattarins að músinni.

Leave a Comment

Netfang þitt verður ekki birt.

You may use these HTML tags and attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <s> <strike> <strong>