Tignir gestir

/ júlí 10, 2014

Santa Barbara

Um helgina fengum við gest alla leið frá Kaliforníu. Kathleen Baushke frá Santa Barbara Yacht Club heimsótti okkur og færði að gjöf fána félagsins. Fyrr í sumar fengum við heimsókn frá Royal Dee Yacht Club, sem er með elstu siglingafélögum heims.

Siglingafélagið í Santa Barbara var stofnað árið 1872 og er því rótgróið félag með traustar stoðir og gamlar hefðir. Kathleen Bauske, sem bæði keppir og tekur þátt í keppnisstjórn fyrir félag sitt, var áhugasöm um sögu og starfsemi Brokeyjar. Við ræddum m.a. um barna- og unglingastarfið, en einnig hvernig hægt er að fá ungt siglingafólk til að halda áfram siglingum og fá það í kjölbátasiglingarnar. Það er ljóst að það er ekki bara hér í Brokey sem við glímum við þennan vanda og áhugavert að skoða hvernig við getum fengið fleiri til að taka þátt í siglingaíþróttinni.

Fyrr í sumar heimsótti okkur langsiglarinn og rithöfundurinn Nick Pochin á skútunni sinni Festina Lente. Nick lætur sér ekki nægja að sigla hina hefðbundu leið í kringum hnöttinn og lýsir í bókum sínum hvernig hann siglir heimskauta á milli. Það var gaman að heyra sögur Nicks af fólki og ferðalögum. Langsiglingar snúast ekki aðeins um ferðalagið sjálft heldurRoyal Dee einnig að kynnast fólki og eignast nýja vini og það er gaman þegar því er miðlað áfram til fróðleiksfúsra siglara, sem drekka í sig þessar ferðalýsingar eins og svampar. Nick gaf Brokeyingum fána félags síns, Royal Dee Yacht Club, en félagið, sem var stofnað 1815, er næst elsta siglingafélag Bretlands og því með allra elstu siglingafélögum heims.

Við kunnum þeim Kathleen og Nick bestu þakkir fyrir. Um leið  minnum við félagsmenn á að hægt er að kaupa veifu með merki félagsins og væri gaman að sjá þá sigla undir merki Brokeyjar.

Share this Post