SÍL-þing

/ febrúar 24, 2014

sil_icon

41. Siglingaþing SÍL (Siglingasamband Íslands) fór fram 22. febrúar síðastliðinn í höfuðstöðvum ÍSÍ. Siglingafélag Reykjavíkur – Brokey á rétt á þremur fulltrúum eins og önnur siglingafélög landsins. Fyrir hönd Brokeyjar sátu Áki Ásgeirsson, Jón Pétur Friðriksson og Arnar Freyr Jónsson. Samkvæmt ársskýrslu SÍL eru níu virk siglingafélög aðilar að sambandinu. Iðkendum í siglingum hefur fjölgað milli ára, voru 1493 árið 2012 en 1594 árið 2013.
Starfsemi SÍL er í föstum skorðum en rekstur sambandsins hefur verið erfiður síðustu ár þó að tekist hafi að rétta reksturinn nokkuð við árið 2013. Aðaláherslur í starfi SÍL eru fræðslu-og útbreiðslumál og meðal annars er verið að undirbúa verkefni þar sem komið er á tengingu milli útikennslu skóla og siglingafélaga. Annað mál sem brennur á flestum siglingafélögum á Reykjavíkursvæðinu er fyrirhuguð brú yfir Fossvog en í ársskyrslu SÍL kemur fram að slík brú loki fyrir starfsemi Brokeyjar og Ýmis í núverandi mynd.
Samþykkt var að breyta kappsiglingafyrirmæmun þannig að dagbátar og kjölbátar eru í framtíðinni skilgreindir sem kjölbátar enda með gilda IRC forgjöf. Það var einnig samþykkt að skora á sveitastjórnir og bæjarfélög að styðja betur við bakið á eingreinarfélögum með föstu stöðugildi allt árið um kring.
Gestur þingsins var Ingi Þór Ágústsson en hann situr í framkvæmdastjórn ÍSÍ og flutti hann ávarp. Hann fór m.a. yfir störf ÍSÍ og aðkomu sína að siglingum.
Þingforseti var Gísli Gíslason Hafnarstjóri Faxaflóahafna.
Stjórn SÍL var kosin og er Úlfur Hrjóbjartsson, formaður. Stjórnarmenn eru Sigurjón Hjartarson, Anna Ólöf Kristófersdóttir, Klara Bjartmarz og Ólafur Már Ólafsson, Varamenn eru Martein Swift, Rúnar Þór Björnsson og Arnar Freyr Birgisson. Heiðursformaður er Ari Bergmann Einarsson.

Hér er hægt að sækja ársreikning SÍL

Share this Post