40 hnútar!

/ ágúst 14, 2007

{mosimage}Það blés hressilega í þriðjudagskeppninni að þessu sinni. Snorri á Bestunni sá 40 hnúta í einni hviðunni!!! Þeir voru nú frekar vel settir með 11 manns í buffi sem slagar hátt í tonnið!! Og þá er Kafteinn Baldvin ekki talinn með. Stíf beiting útað 7-bauju og þónokkur ölduhæð. Stagvendingar gengu misvel fyrir sig. Sumir þurftu að gera tvær tilraunir. En bátar flugu inn til baka. Molinn sá 15 hnúta á mælinum!!! Á lensinu kom skemmtilegt skemmtiferðaskip til að skemmta flotanum…… Í logninu af skipinu húkkaðist runnerinn öðru megin úr mastrinu á Aquariusi svo það var ekkert um annað að ræða fyrir þá en að stíma í höfn. Þegar hinir bátarnir komu inn að baujunni við félagsheimilið var staðan þessi: Bestan fyrst, Ísmolinn í öðru, síðan Lilja, Dögun og Ögrun. Við tók þríhyrningur, SPRON-baujan, Hjallasker og félagsheimið. Það má segja að á þessum hluta hafi menn ekki vitað hvaðan á þá stóð veðrið, búnir að sigla hressilega á góðri ferð, síðan allt stopp. Panikk hjá áhöfninni…. trimma, stýrimaður snýr bátnum og skilur ekkert. Síðan áttuðu menn sig á að þeir voru í dauðalogni, mitt í öllu rokinu. Seglin bara blöktu. Besta freistaði þess að setja upp belg. Þeir voru fljótir að taka hann niður þegar þeir sáu á haffletinum roku koma. Því miður náðust engar myndir enda allar hendur notaðar til að halda í spotta eða halda sjálfum sér. Ísmolinn reyndi hvað hann gat til að halda genakernum með litlum árangri. Þetta var mikið sjónarspil fyrir áhafnir annarra báta. Þetta ævintýri Molans kostaði þá drjúgt.

Úrslitin má skoða undir viðeigandi link hér vinstra megin.

Share this Post