Ögrun sigraði … að sjálfsögðu!
Vegna skorts á keppnisstjórum var ákveðið að áhöfnin á Ögrun tæki tímann á bátunum þar sem hún þótti líklegust til að koma fyrst í mark. Þeirri ákvörðum var stefnt í voða stuttu síðar því áhöfnin á Xenu mætti rétt fyrir start og hefði hæglega getað sett tímatökur í uppnám. Það vildi þó svo „vel“ til að Xena var vélarvana og þurfti að fara á seglum frá bryggju. Það olli lítils háttar töfum sem orsakaði það að Xena fór ekki yfir ráslínu fyrr en eftir dúk og disk. Það skýrir líka ljósmyndina, að Xena sé að slást við Aríu og Lilju á bauju úti við Akureyjarrif …
Að öðru leyti fór keppni vel fram í fínum vindi. Brautin var Brokey–Akureyjarrif–Engeyjarrif–Brokey. Kannski helst til stutt keppni. Eftir klukkustund langar mann ekkert í land, þó pylsuanganina leggi út á Sundin.
… og það skal tekið fram að í fyrirsögninni felast engar dylgjur!