Aðeins um spons

/ febrúar 14, 2007

{mosimage}Hvað skiptir máli þegar verið er að semja við og vinna fyrir styrktaraðila?


Það er ekkert einfalt mál að vera með styrktaraðila á bakinu, eða á seglinu eins og við þekkjum það helst. Góður styrktaraðili leggur vel í púkkið varðandi rekstrarkostnað keppanda og fær vonandi góða ávöxtun á því fé.

Í siglingum skiptir styrktaraðili miklu máli vegna þess mikla kostnaðar sem liggur í því að gera út seglskip í keppnum, hvort sem það er lítið eða stórt.

Tökum sem dæmi eitt stykki Secret 26 kjölbát og áhöfn á hann. Rekstrarkostnaður á slíkum bát í fyrstaflokks keppnishæfu ástandi er ekki undir 500.000,- á ári. Afskriftir báts eru um 200.000,- seglin sem kosta um 600.000,- duga í hámark þrjú ár og svo eru bryggjugjöld, öryggisbúnaður, skoðanir, tryggingar og svo framvegis.
Keppendur í siglingum vilja auðvitað ná sem mestum peningum upp í þennan kostnað til að þurfa ekki að punga honum út úr eigin vasa. Hvað þýðir það?

Þetta þýðir að áhöfnin ræður sig í raun í vinnu hjá einhverju fyrirtæki. Vinnan felst í því að birta eitthvert tiltekið vörumerki eins oft og hægt er. Segjum sem svo að það standi SPV á bátnum, eins og til vinstri hér á síðunni.
Hvernig fær Sparisjóður Vélstjóra mest fyrir peninginn? Hvernig kemur áhöfnin því þannig fyrir að lítið mál verði að semja um áframhaldandi stuðning næsta sumar?
Eins og fyrr segir vetrður áhöfnin að líta svo á að hún sé í vinnunni. Áhöfnin þarf að vinna fyrir kaupinu sínu. Þegar sést til ljósmyndara þá er auðvitað siglt framhjá honum til að komast í mynd. Það þarf endalaust að vera að bjóða ljósmyndurum, fréttafólki og öðrum slíkum aðilum með í siglingar. Það þarf líka að sjá til þess að fréttir birtist, oft sendir maður bara fréttatilkynningar sjálfur.

Það sem hægt er að selja er eftirfarandi raðað eftir verðmætaröð: Nafn bátsins, auglýsingaflötur á seglum, auglýsingaflötur á skrokk, auglýsingafletir á reiða og auglýsingafletir á fatnaði.

Sumum finnst undarlegt að selja nafn bátsins en ef þú ert með kostnað upp á milljón á ári ertu þá ekki til í að gera ýmislegt til að draga úr þeim hluta sem kemur úr þínum eigin rassvasa? Allir bátar hafa í raun nafn til dæmis gæti Sigurvon verið skráð sem Sparisjóður Vélstjóra en eigendurnir vita að hún heitir í raun Sigurvon. En opinbera nafnið verður aldrei neitt annað en Sparisjóður Vélstjóra og aldrei um annað rætt. BESTA heitir til dæmis Going Concern en þið vissuð það ekki fyrr en nú og í keppnum í Hollandi hét hún alltaf Xiphias.

Ef sæmilegir fjármunir væru í gangi frá auglýsendum í siglingaíþróttinni væri hægt að borga fyrir birtingar eins og gert er í fótbolta og ýmsum öðrum íþróttum. Eins og reyndar er gert í WMRT. Til þess að sýnt sé meira frá íþróttinni þarf væntanlega að leggja meiri búnað, tíma og vinnu í að ná góðu efni.
Á þennan hluta var lögð mikil áhersla þegar BESTA keppti frá Paimpol um aldamótin. Það var sérstakur kvikmyndatökumaður um borð. Það var sérstakur fréttaritari áður en lagt var í hann frá Frakklandi. Það var sérstakur fréttaritari meðan báturinn var á sjó. En áhöfnin þurfti að gera þetta allt sjálf.

Valið er einfalt: Meiri tími í aukavinnu til að standa undir rekstarkostnaði bátsins eða; vinna þessa aukavinnu um leið og verið er að keppa.

Þetta snýr í raun eins að kænum, nema þá þarf íþróttafélagið að koma miklu meira að málum eins og til dæmis hefur gengið ágætlega hjá Þyt.

Maður er sem sagt í raun að ráða sig í smá aukavinnu og þarf að sinna henni. Koma vel fyrir og nota hvert tækifæri til að koma sér á framfæri. Ef fjölmiðlamanneskja óskar eftir að hitta þig eða koma með þá er svarið bara: Hvenær?

Share this Post