Áríðandi skilaboð frá bryggjunefnd
Fyrir hönd félagsins eru Baldvin Björgvinsson og Arnar Freyr Jónsson í bryggjunefnd. Næstu daga verður endanlega ákveðið hvar og hvernig flotbryggjan verður næstu 10 til 20 árin. Nú fáið þið þetta eina tækifæri til að koma með ábendingar til okkar. (Smellið á Nánar).
Hér að ofan, er mynd sem við fengum hjá höfninni og er þeirra hugmynd að skipulagi. Það er hins vegar okkar hlutverk, Baldvins, Arnars og ykkar skútuegenda að koma með sérfræðiálit, reynslu og þekkingu á því að hafa verið þarna með skútur í tugi ára og leggja þá þekkingu fram.
Það er augljóst að þeir sem hönnuðu sjávarhlið Hörpu hafa ekki tekið tillit til neinnar einustu ábendingar sem við höfum reynt að koma áleiðis. Glerið stendur marga metra út í höfnina og við sem erum á skútum og með mastur, getum ekki forðast það með neinum hætti.
Einnig er veggurinn sem að okkur snýr lóðréttur og sléttur sem verður til þess að allar bylgjur sem á honum lenda endurkastast bara 100% til baka. Þetta verður suðupottur.
Sem nágrannar þessa hönnnunarklúðurs, verðum við að bregðast við með skynsömum og ábyrgum hætti.
Bryggjunefndin leggur til að flotbryggjan verði staðsett sem fjærst Hörpunni. Staðsetning sem kölluð hefur verið B og er beint fyrir framan hvítu gámana.
Eins og sjá má á myndinni er hugmynd hönnuða nærst Hörpunni. Staðsetning sem kölluð hefur verið A og liggur út frá nýju timburbryggjunni.
Ef bryggjan er staðsett þar (nærst Hörpunni) þá verður mikill órói norðanmegin við bryggjuna því hún er illa varin gegn öldugangi. Fáir eða engir bátar fást til að liggja þar.
Hættan á því að reka rá og reiða í glerið er einnig mikil ef bátar fara Hörpumegin við bryggju. Tjónið getur hlaupið á slíkum upphæðum að engin ábyrgðartrygging nær að dekka það tjón.
Í stuttu máli sagt viljum við enga báta hafa Hörpu-megin við flotbryggju.
Sjálfur hef ég, Baldvin, þrátt fyrir að vera ekki staddur á bryggjunni 365 daga á ári, séð fjölmarga báta lenda í vandræðum og rekast utan í báta á leiðinni frá bryggju. En þeir hafa náð að bjarga sér því þeir ná að ýta sér frá. Við hörpuna er það algerlega útilokað nema allir bátar séu með þrjú stykki af sexmetra löngum krókstjökum um borð.
Við viljum einfaldlega forðast þessa byggingu eins og kostur er.
Hér að neðan er Magnús Arason búinn að fótósjoppa tillögu okkar um það bil eins og við sjáum hana.
Hér fyrir neðan er uppröðun báta á bryggjunni, kostur A og kostur B. En eins og fyrr segir þá mælum við með kosti B. Við teljum að þannig fáum við almennt rólegri og betri viðlegu.
Setjið endilega ábendingar ykkar og skoðanir í athugasemdakerfið hér fyrir neðan. Verið fullkomlega hreinskilnnir (en kurteisir). Athugið sérstaklega hvort ekki sé hæfilegt rými fyrir þinn bát, það gætu verið villur í tölum.