Ársráðstefna World Sailing

/ nóvember 16, 2017

Ársráðstefnu World Sailing í Puerto Vallarta í Mexíkó lauk núna um helgina. Ráðstefnan er aðalfundur sambandsins þar sem allar nefndir koma saman og skila af sér álitum til siglingaráðsins. Ráðið, þar sem sitja um 40 fulltrúar, tekur síðan endanlegar ákvarðanir varðandi hluti eins og mótahald, ólympíuklassa, keppnisreglur og margt fleira. Yfir 500 fulltrúar sóttu ráðstefnuna, þar á meðal Úlfur Hróbjartsson sem situr í siglingaráðinu fyrir Norðurlöndin. Yfirskrift ráðstefnunnar í ár var #UnitingOurSport sem vísar til þess að reynt er að fá alla þá ólíku hagsmunaaðila sem koma að siglingum um víða veröld saman að borði til að auka veg íþróttarinnar.

Skýrsla forseta á þinginu.

Þetta var fyrsta ráðstefnan undir stjórn Kim Andersens sem var kosinn formaður sambandsins á fundi síðasta árs í Barselóna. Við þetta tækifæri dró rússneska olíufyrirtækið Gazprom stuðning sinn við sambandið til baka fyrr en áætlað var.

Siglingakona og siglingamaður ársins voru valin þau Marit Bouwmeester, ólympíumeistari og heimsmeistari á Laser Radial, og Peter Burling, ólympíumeistari á 49er. Burling fékk fréttirnar í gegnum gervihnattarsíma þar sem hann var á siglingu suður Atlantshafið um borð í Team Brunel.

Tvær opnar ráðstefnur voru haldnar í tengslum við ráðstefnuna. Sú fyrri var um þátttöku kvenna og bar yfirskriftina Balancing the Boat. Síðari ráðstefnan fjallaði um sjálfbærni siglinga. Þar var sjálfbærniáætlun sambandsins til 2030 kynnt en hún er tengd við sjálfbærniáætlun Alþjóðaólympíunefndarinnar og sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Eitt af því mikilvægasta sem lá fyrir á þessum fundi var að ákveða keppnisdagskrá og þátttökuskilyrði fyrir Ólympíuleikana í Tókýó 2020. Fyrir liggur að siglingar þurfa að aðlaga sig nýjum áherslum Alþjóðaólympíunefndarinnar varðandi þátttöku og sjálfbærni. Ákveðið var að sæti á Ólympíuleikunum myndu skiptast jafnt milli kynja. Það verða því fjórar kvennagreinar, fjórar karlagreinar og tvær eða fjórar blandaðar greinar. Heimsmeistaramótið í Árósum næsta ár verður mikilvægasta mótið til að vinna sér inn sæti á leikunum.

Um nýja heimsmeistaramótið í sófasiglingum

Margar nýjungar voru ræddar á fundinum. Ákveðið var að stofna til nýrra heimsmeistaramóta í  útfjarðarsiglingum (offshore) með eins bátum og sófasiglingum með forritinu Virtual Regatta Inshore.

Úlfur Hróbjartsson var skipaður í siðanefnd sambandsins sem hefur umsjón með siðareglum siglinga frá 2014.

Hægt er að skoða helstu fréttir frá fundinum og myndbönd á sailing.org.

Share this Post