Bara blíða á þriðjudegi

/ júlí 17, 2007

{mosimage}Frábært siglingaveður. Það hefur ekki verið felld niður keppni á þriðjudegi vegna vindleysis svo lengi sem elstu menn muna. Frískur vindur í boði fyrrum áhafnar Ísoldar, þeim Aroni og Grétari með dyggum stuðningi Snorra gjaldkera. Eins og best verður á kosið. Talandi um best, þá var Bestan ekki með að þessu sinni, kafteinninn sást strauja út sundin á hvalaskoðunarbátnum Andreu rétt fyrir keppni…Það voru sex bátar sem tóku þátt að þessu sinni. Brautin var pulsa upp að Sjöbauju og Engeyjarþríhyrningur í lokin. Menn eru enn svo brenndir af hafgolunni og treysta ekki vindinum af gefnu tilefni. Það er gott að geta klippt þríhyrninginn af ef eitthvað kemur uppá. Engeyjarþríhyrningurinn er skemmtilegur hluti af keppninni, stuttir leggir og í beinni sjónlínu frá landi sem gefur fjölda fólks tækifæri til að berja þessa fallegu íþrótt augum.


Þetta hefur einnig gefið mönnum tækifæri til að taka millitíma sem er skemmtilegt.


Dögun var ein í fyrra starti og tókst að þjófstarta, flautaðir inn og byrjuðu aftur. Þrátt fyrir þennan vandræðagang mun Dögun hafa náð muuuun betra starti en aðrir bátar sem voru ótrúlega feimnir við startlínuna. Engin þorði að fara yfri fyrstur.


Tímarnir eru komnir inn undir sinn lið hér á síðunni. Ein breyting varð á röð báta frá millitímanum. Ögrun missti Aquarius fram úr sér. Ögrun tapaði 34 sek. á Engeyjarþríhyrningnum miðað við Aquarius og hafa því tekið að sér hlutverk Dögunar sem gjarnan glutraði niður forskotinu eftir millitímann.

Fljótlega munum við birta myndir frá keppninni.


Við minnum á Sumarmót Ýmis sem mun fara fram næstkomandi laugardag. Verður þá siglt frá Reykjavík og inní Fossvog. Þar verður trúlega tekin stutt braut ef veður leyfir.


Nú vantar bara NOR-ið…

Share this Post