Dalmatíuskúturnar

/ september 16, 2008

Nú í dag hefur eitthvert torkennilegt efni sullast yfir bátana okkar frá tónlistarhúsinu. Sumir vilja meina að þetta sé steypa, aðrir að þetta sé olía, enn aðrir að þetta sé astraltertugubb. Hvað sem það er þá líta skúturnar út eins og dalmatíuhundar eða hesturinn hennar Línu langsokks. En að öllu gamni slepptu þá mun byggingarkrani hafa sveiflað steypusílói yfir bátana og lekið úr því.
Steypa er þeim eiginleikum gædd að meðan hún er í fljótandi formi þá brennir hún sig auðveldlega inn í ýmis efni eins og til dæmis gler og ál.
Allt sem fyrir því verður er ekki samt á eftir, jafnvel ónýtt.
Nú þegar þetta er ritað er nokkur fjöldi báteigenda að binda báta sína betur fyrir komandi storm og að reyna að þrífa bátinn í leiðinni. Lögreglan að taka skýrslu og forsvarsmenn verktaka að skoða aðstæður.
Ef þú átt bát við brokeyjar-bryggjuna þá ættir þú að líta á bátinn þinn.

Share this Post