Den lille galionsfigur

/ ágúst 9, 2007

Nokkrir íslendingar voru að sigla í danaveldi nýlega. Þegar siglt var framhjá Litlu hafmeyjunni langaði farþegana að sjá hana betur. Það var auðsótt mál að breyta aðeins stefnunni og var stefnan tekin beint á hafmeyjuna. Þegar dýptarmælirinn sagði 0m undir kjöl var sett í bakk en..

báturinn bakkaði ekki.
Stýrimaðurinn setti gjöfina lengra afturábak en báturinn bara jók hraðann um leið og hann stefndi beint á þá litlu. Nú var bara tekin skyndiákvörðun, hartíbak, sem sagt beygt til vinstri eins og hægt var. Enn sagði dýptarmælirinn núll og báturinn á nokkurra hnúta hraða. Svitinn spratt fram, og hjartað barðist um, sekúndur liðu eins og mínútur, allt gerðist eins og í mynd sem er sýnd hægt. Og svo… ekkert, við sluppum. Kannski smá far í drullunni á botninum en við strönduðum ekki.
Nú grunaði menn hvað hefði komið fyrir. Eitthvað hafði losnað í gírskiptingunni og jú mikið rétt, þegar að var gáð hafði gírskiptingar barkinn losnað af á gírnum. Frekar auðvelt að laga.

Hvað getum við lært af þessu?
1. Aldrei treysta gírskiptingum og eldsneytisinngjöfum á bátum. Barkinn mun fara í sundur það er ekki spurning um hvort heldur hvenær.
2. Þess vegna kemur maður alltaf eins rólega og maður getur að landi. Ef gírskiptingin hefði bilað inni í Nýhöfn þá hefði þessi 20 tonna skúta valdið gríðarlegu tjóni á nokkurra hnúta hraða.
3. Gírskiptingin mun bila einhverntíman og það verður þegar þú síst vildir.

Í þessu tilfelli var það sekúnduspursmál hvort við tækjum höfuðið af Litlu hafmeyjunni með stóra ankerinu sem hangir á stefninu, eða hvort Den lille haffrue endaði sem Den lille galionsfigur á bátnum okkar.

Share this Post