Eigið þið öngla?

/ nóvember 20, 2006

Leðurblökurnar leggja allar af stað á sama tíma. Himininn myrkvast þegar hundruð þúsunda leðurblaka fljúga upp úr trjánum í miðbæ Madang og leggja af stað í fæðuleit. Á daginn eru sum trén yfirfull af hangandi, sofandi leðurblökum…

 

Ég reyndi að telja í einu tré í miðbænum en hætti þegar ég var kominn upp í 200 og var bara kominn áleiðis. Þetta eru jurtaætur sem fljúga allt að 150 kílómetra í fæðuleit. Eins og starrarnir hrúgast þær allar á sama staðinn á nóttunni og staðurinn er miðbær Madang sem stundum er nefndur fegursti bær suðurhafa.

Bátaklúbburinn í Madang er kvöldaðsetur hvítra hjálparstarfsmann, gjarnan Ástrala. Sumir hafa unnið hér árum saman. Svo er þarna slatti af hvítum einhleypum köllum sem reka fyrirtæki hér í bænum. Margir rígfullorðnir hörkunaglar sem hafa ílengst. Flestir bera þeir vissan svip: Töffarar, byttur. Við fórum á klúbbinn með kallinum sem á bátaviðgerðastöðina sem við liggjum við. Sextíu og sex ára byttu sem var aðeins í því þegar hann keyrði þangað og stóð varla á fótunum þegar hann keyrði okkur til baka. Sören og Hendrik voru verulega skelkaðir. Svo svínaði kallinn fyrir eina bílinn sem var á leiðinni. Hann keyrði svartur rumur sem hafði líka verið að drekka í bátaklúbbnum. Hann varð alveg snar, keyrði upp að okkur og öskraði að við hefðum ekki synt virðingu. Svo elti hann okkur inn í bátaviðgerðastöðina og heimtaði virðingu. Eigandinn reif sig upp úr öllu, varð spertur eins og fullorðnar fyllibyttur verða stundum og skipaði honum út af svæðinu og sagði hann fá þá virðingu sem hann ætti skilið. Sören og Hendrik urðu ennþá skelkaðri, heldur að hann kæmi til baka með múg manns að taka í lurginn á okkur. Eigandinn sagðist bara skjóta hann ef hann kæmi aftur. Virðingin fyrir mannslífum virðist ekki vega mikið hérna eða kannski var þetta bara karlagrobb.

Eigandinn segist margmilljóner. Fyrir utan bátaviðgerðastöðina, brotajárnssöfnun og vörubílarekstur hér í Madang segist hann eiga fullt af fyrirtækjum út um allt. Konan búi í Ástralíu en honum leiðist þar svo hann búi bara í kompu innaf skrifstofunni sinni í skúr hér í bátastöðinni. Ég held að þetta séu draumórar. Kallinn eigi bara þessi smáfyrirtæki hérna í bænum þar sem 35 menn vinna og ekkert meir. Kerlingin sé farin frá honum og hann hýrist hérna í einsemd og ölvímu.

Á leiðinni hingað settum við í Blue Marlin. Hann stökk tvisvar svona 5-10 bátslengdum fyrir aftan okkur. Sören nötraði allur af spenningi þegar hann var að þreyta hann. En svo losnaði síðan af króknum. Það er erfitt að áætla hvað hann var stór þetta langt frá bátnum en líklega hefur hann verið meira en 50 kíló. Í bátaklúbbnum var einn uppstoppaður, 210 kíló.

Sören gat huggað sig við að kvöldið áður hafði hann farið með fjórum heimamönnum í svakalangtíburtistan á humaveiðar, snorklandi ofan á rifi með ljós og spjót. Hann er þaulvanur kafari og var með sundfit en þeir syntu miklu hraðar berfættir. Bara á meðan hann var að hugsa sig um var sá fyrsti kominn með fisk í munninn og humra í hvora hendi, vinkandi í bátinn að koma að ná í aflann. Eftir klukkutíma lágu 18 humrar og um 100 kíló af fiski. Þetta eru ekki hættulausar veiðar. Humrarnir gefa frá sér einhverskonar sársaukaöskur og það æsir hákarlana og dregur þá að. Þess vegna er mjög áriðandi að koma humrinum strax upp úr sjónum og helst upp í bát eða bala.

Þarna í svakalangtíburtistan varð ég í fyrsta skipti áþreifanlega var við þann gamla hugsunarhátt heimamanna að eignarréttur var ekki til. Þegar vestrænir menn byrjuðu að sigla á þessar slóðir tóku heimamenn bara það af skipunum sem þeir sáu og þá vantaði. Vestrænir urðu alveg snælduóðir, kölluðu hina örgustu þjófa en heimamenn skildu ekki hugtakið. Þá skutu evrópumennirnir þá og hinir svöruðu fyrir sig eftir bestu getu. Og vestrænir forðuðust þessar slóðir og sögðu Mícrónesíumenn vera örgustu villimenn. Ég varð þannig var við þetta að höfðinginn kom á kanó uppað bátnum okkar og sagði. „Eigið þið öngla?“ Þegar ég svaraði játandi sagði hann. „Þið eigið öngla en okkur vantar þá. Ég krefst þess að fá öngla“. Minnugur sagnanna um átökin forðum rétti ég honum 20 öngla og allir voru sáttir.

kveðjur frá 5  13,0s  145 48,4e

Magnús Waage

ps: allar sögur um jarðskjálfta og flóðbylgur eru stórlega yktar eða rangar (ca Mark Twain)

Share this Post