Engin frestun – keppni hefst á morgun

/ ágúst 5, 2010

Nú er ljóst að lægðin sem spáð er á morgun verður utar í flóanum þannig að okkur er ekkert að vanbúnaði að hefja keppni samkvæmt áætlun með skipstjórnarfundi kl. 13:00 á morgun, föstudag.

Fyrirkomulag verður þannig að sigldar verða eins margar umferðir og við komumst upp með en að keppni ljúki fyrir kvöldmat. Á bryggjunni verður boðið upp á grillað lambakjöt og gos, og einhverjar enn léttari veitingar verða til sölu gegn vægu verði.

Á laugardag hefst skipstjórnafundur kl. 9:00 um morguninn. Þar verður boðið upp á morgunmat; brauðmeti og kaffi, svo enginn þarf að fara svangur af stað. Við mælumst til þess að menn séu fullnestaðir fyrir daginn, þar sem ekki mun gefast tími til að fara í land og borða. Tvö hálftíma hlé verða yfir daginn þannig að menn nái að hvílast aðeins og næra sig um borð í bátunum.  Aftur verða sigldar eins margar umferðir og við komumst upp með en miðað við að keppni ljúki klukkan 18:00.

Ætlunin er að gera tilraun með að senda röðina eftir hverja umferð með SMS í farsímanúmer sem við biðjum skipstjóra að láta okkur í té á fyrsta skipstjórafundi. Þannig geta menn áttað sig á því hvar þeir standa í mótinu meðan á því stendur.

Milli klukkan 18:00 og 21:00 lýkur kærunefnd störfum og keppnisstjórn veit hver endanleg uppröðun er. Þá hafa keppendur tækifæri til að skipta um föt og fá sér kvöldmat. Klukkan 21:00 verður verðlaunaafhending og hátíðardagskrá í Víkinni, Sjóminjasafni Reykjavíkur, Grandagarði. Þar verður hægt að kaupa drykki. Allir sem áhuga hafa á siglingaíþróttum eru hjartanlega velkomnir og við hvetjum ykkur eindregið til að taka með ykkur gesti. Dagskránni lýkur um 23:00. 

Share this Post