Enn bætast Íslandsmeistarar í hópinn

/ ágúst 16, 2010

Núna um helgina bættust þrír nýir Íslandsmeistarar við þá þrjá sem fyrir voru í Brokey þegar keppt var á kænum í allskonar veðri á Akureyri. Brokey átti fulltrúa í öllum flokkum þetta árið nema þar sem keppt var í opnum flokki með Portsmouth-forgjöf, alls fjórum flokkum af fimm. Metþátttaka var annars á mótinu, 60 manns að keppa á 53 bátum og sjón að sjá öll seglin samankomin á Pollinum.

Hilmar Páll Hannesson og Hulda Lilja Hannesdóttir vörðu Íslandsmeistaratitil sinn frá því í fyrra með glæsibrag en fast á hæla þeirra komu Eyþór Örn Ólafsson og Tristan Axel Kristinsson úr Þyt. Brokeyingarnir Gunnar Hlynur Úlfarsson og Gunnar Kristinn Óskarsson hrepptu bronsið og Björn Bjarnarson og Orri Leví Úlfarsson voru í fjórða sæti.

Það var svo Hrefna Ásgeirsdóttir úr Brokey sem varð Íslandsmeistari í Optimist B, en þeir Gunnar Bjarki Jónsson, Ými, og Stefán Ármann Hjaltason úr Nökkva, lentu í öðru og þriðja sæti. Þorbjörg Erna Mímisdóttir úr Brokey varð í 7. sæti. Þrír Brokeyingar þreyttu keppni í Optimist A-flokki og þar varð Búi Fannar Ívarsson í öðru sæti en sigurinn hreppti Sigurður Sean Sigurðsson úr Nökkva. Erlendur Snæbjörnsson úr Brokey varð í 6. sæti og Lína Dóra Hannesdóttir í því 9. 

Brokeyingar áttu nú í fyrsta skipti í nokkurn tíma keppendur á Laser á Íslandsmóti. Þeir Kári Steinn Steinarsson og Úlfur Hróbjartsson hrepptu þar 6. og 7. sæti en Nökkvamennirnir Björn Heiðar Rúnarsson, Dagur Arinbjörn Daníelsson og Gauti Elfar Arnarsson röðuðu sér í efstu sætin. Kempan Martin Swift sem helgina áður var næstum búinn að stýra Aquarius í bronsið í kjölbátakeppninni, landaði hér Íslandsmeistaratitli fyrir Nökkva í opna flokknum á Laser með radialsegli. 

Nökkvi hafði veg og vanda að keppninni og var mál manna að gríðarlega vel hefði tekist til, eins og svo oft áður þegar kænumót hafa verið haldin fyrir norðan. Umgjörð keppninnar þótti einkar glæsileg. Eikarbáturinn Húni II tók sig vel út í keppnisstjórn og skonnortan frá Húsavík, Hildur, heiðraði þátttakendur með nærveru sinni.

Myndin hér að ofan er fengin að láni af vef Nökkva. Hægt er að skoða öll úrslitin og fullt af flottum myndum þar.

Share this Post